01.04.1940
Neðri deild: 27. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í B-deild Alþingistíðinda. (1852)

16. mál, vegalög

Pétur Ottesen:

Ég get engan veginn tekið undir það með síðasta ræðumanni, að n. hafi hitt svo naglann á höfuðið, að ekki sé ástæða til að taka annað til greina en það, sem hún leggur til, en hitt vil ég taka undir með honum, að allt, sem n. leggur til, stefnir í rétta átt, þó að engan veginn sé svo tekið undir óskir manna sem ég hefði óskað og vonað.

Ég vil svo víkja að þeirri till., sem ég bar upphaflega fram sem frv. N. hefir ekki tekið til greina nema eina af þeim þremur óskum, sem ég bar fram samkv. eindreginni áskorun þeirra manna, sem þar eiga hlut að máli, sem sé að taka Grímsárbraut upp í þjóðvegatölu, en alveg gengið framhjá hinum tveimur, sem sé Lundarreykjadalsvegi og svokölluðum Akranesvegi, sem tengir sveitirnar austan Akrafjalls við kauptúnið Akranes. Um þann fyrri er það að segja, Lundarreykjadalsveginn, að það er almennt litið svo á, þar á meðal af mönnum, sem utanhéraðs eru og láta sig miklu skipta samgöngur á þessari leið, að endurbætur á þessum vegi muni, eins og nú er komið, ekki vera ýkjakostnaðarsamar, en vegurinn hafa ákaflega mikla þýðingu, sér í lagi fyrir þá, sem koma að norðan eða vestan og vilja fara til Reykjavíkur landleiðina um Borgarfjörð, því að þá er langstytzt að fara Uxahryggjaveg og á Kaldadalsveginn. Þessi leið er miklu fyrr opin en sú raunverulega Kaldadalsleið, sem er farin upp úr Hálsasveit, upp hjá Húsafelli, sem liggur miklu hærra en þessi leið og er því miklu lengur undir snjó. Þessi leið er því mjög þýðingarmikil, einkum í sambandi við langferðir. Nú stendur svo á, að þessi vegur er nú þegar að nokkru leyti lagður, en að nokkru leyti ruddur fram eftir Lundarreykjadal, en eftir eru Uxahryggir og allra fremst í dalnum. En þegar eingöngu er miðað við sumar-. haust- og vorleið, þá hagar svo til, að ekki þarf annars við en að ryðja á þessari leið, svo að kostnaður af þessu er tiltölulega lítill, og þegar það fer saman, að þarna þarf ekki að offra miklu fé til þess að fá miklu styttri leið heldur en nú er nokkur kostur, þá finnst mér öll sanngirni mæla með að þessi mikilsverði vegur verði tekinn í þjóðvegatölu og gerðar á honum nauðsynlegar umbætur. Eins og sakir standa nú, er benzín, gúmmí og annað, sem þarf til rekstrar bíla, ákaflega dýrt, og má búast við, að svo verði nú fyrst um sinn, og verður að kaupa allt slíkt frá útlöndum, svo sem allir vita. Það er því mjög mikils virði, ef hægt er með tiltölulega lítilli fyrirhöfn að færa slíkan kostnað niður. Ég er því alveg sannfærður um, að þessi vegur er í fyrstu röð þeirra vega, sem taka á í tölu þjóðvega. Það má vel vera, að hv. samgmn. hafi ekki verið nægilega kunnug staðháttum, vegna vantandi upplýsinga, er hún tók ákvarðanir um brtt., en nú hefi ég bætt úr því, sem ég kann að hafa átt vangert áður með upplýsingarnar, og vænti fastlega, að háttv. nefnd láti þennan veg fylgja þeim öðrum vegum, er hún hefir mælt með að teknir yrðu í þjóðvegatölu.

Hvað Akranesveginn snertir, þá má færa gildar ástæður fyrir því, að hann eigi að takast í tölu þjóðvega, eins og margir þeir vegir, sem hv. samgmn. hefir mælt með, enda þótt hann liggi ekki á aðalsamgönguleið á milli landsfjórðunga.

Ég vil svo að síðustu taka það fram, að ég vænti þess fastlega, að ég hafi hér á Alþingi rutt þá braut, eða riðið á vaðið með breytingar á vegalögunum, sem virðist ætla að hafa það í för með sér, að nokkur bót fáist á þessum málum og óskir og kröfur ýmissa hv. þm. verði uppfylltar í þessu efni.

Ég vil svo að lokum undirstrika nauðsyn þess, að Uxahryggjavegurinn komist í tölu þjóðvega.