12.04.1940
Neðri deild: 34. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (1876)

16. mál, vegalög

*Eiríkur Einarsson:

Vegna þess að ég á sæti í samgmn. þessarar hv. d. og á hér skylt við brtt., sem fyrir liggja, þykir mér rétt að gera grein fyrir afstöðu minni til þessara mála með nokkru tilliti til hvorstveggja.

Þegar meginathugun fór fram á þessu máli í samgmn., lágu hér fyrir m. a. brtt. frá mér á þskj. 60. Ein af þeim brtt., sem þar um ræðir, er um Kiðjabergsbraut, frá Suðurlandsvegi um Reykjabraut að fyrirhuguðu brúarstæði á Hvítá nálægt Kiðjabergi, um Grímsnes vestur til Grímsnesvegar nálægt miðju Grímsnesi. Það er rétt, að þegar vegamálastjóri lagði til, hvaða vegi honum þætti gerlegt að taka í þjóðvegatölu, þá komst þessi till. mín ekki undir þann ramma, og er ekkert um það að segja. Og ég skal verða við þeim tilmælum hv. samgmn. að taka þessa brtt. mína aftur, svo að hún komi hér ekki til atkv. Aftur á móti er hér brtt. á þskj. 404, sem ég flyt og báðir hv. þm. Árn. með mér, um svo kallaðan Partaveg, eins og þeirri vegagerð er lýst hér á þessu þskj. Þessi brtt. kom fram nokkuð síðla, þegar meginathugun n. á brtt. í samráði við vegamálastjóra var um garð gengin. Og þess vegna fellur þessi brtt. ekki undir þann ramma, að vegamálastjóri hafi mælt með þessum vegi. En ég tel, að þar þurfi sérstakra skýringa við. Vegamálastjóri tók það fram, að till. um þennan veg hefði komið nokkuð seint til sín til þess, að hún gæti fengið gaumgæfilega athugun af hans hálfu, og því treysti hann sér ekki, úr því sem komið væri, til að mæla með þessum vegi svona seint. Hinsvegar verður ekki vefengd sú viðurkenning hans, að hann játaði, að um nauðsynjamál væri að ræða, þar sem þessi vegur er, sem hafði verið getið um áður, en með öðru vegarstæði, og flutt var till. um af mér og hv. þm. Árn. En þegar íbúarnir sjálfir, sem áttu við þennan veg að búa, skýrðu fyrir okkur, að það hafði við full rök að styðjast, að vegarstæðinu væri breytt, breyttum við till. okkar samkv. því.

Ég þykist nú enginn drottinsvikari vera við hv. samnm. mína í samgmn., þó að ég ekki taki þessa brtt. aftur, því að ég lýsti því yfir í n., að mér væri mjög umhugað um, að hún mætti ganga fram. Því að, eins og játað var af vegamálastjóra, er mjög nauðsynleg vegagerðin um suðausturhluta Flóans, frá Gaulverjarbæjarvegi yfir Miklavatnsmýri og um Partana að Fljótshólum, af því að þarna er land, sem á sér framtíð og verður nýtt miklu betur en nú er gert, og þá er höfuðnauðsyn, að frambúðarvegur verði lagður yfir þetta svæði. Þeir menn, sem þurfa að fá þennan veg, búa nú við afarillar samgöngur, en þurfa að flytja mjólk sína úr 200 kúm til Mjólkurbús Flóamanna, og þarna er því ekki um neina smávegis einangrun að ræða.

Ég vil geta þess, að það hefir komið fram og var vitanlegt vegamálastjóra, að héraðsbúar, sem eiga að búa að þessum vegi, leggja afarmikið kapp á, að þessi vegur komist í þjóðvegatölu — enda á hann jafnmikinn rétt á því og fjöldi annara vega — svo að þeir bjóða sérstakar fórnir í vinnu til þess, að byrjað verði á þessari vegagerð.

Þarf ég svo ekki að fjölyrða um þetta meira, en endurtek það, að þó að ég taki brtt. á þskj. 60 aftur, þá hefi ég hvorki vilja né aðstöðu til að taka þessa brtt. á þskj. 404 aftur, en fulltreysti því, að hv. þdm. sjái réttmæti þessa máls og greiði þessari brtt. atkv.