12.04.1940
Neðri deild: 34. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í B-deild Alþingistíðinda. (1879)

16. mál, vegalög

*Steingrímur Steinþórsson:

Við 2. umr. þessa máls gat ég þess, að ég teldi samgmn. hafa eftir atvikum komizt sæmilega frá þessu máli og reynt eftir föngum að koma til móts við þá, sem brtt. áttu við frv. Sömuleiðis gat ég þess, að við þm. Skagf. værum ekki ánægðir með till. samgmn., þar sem hún hefði ekki mælt með því, að vegurinn frá Varmahlíð fram í Goðdali, væri tekinn í tölu þjóðvega.

Við 2. umr. frv. þessa var samþ. brtt. frá hv. þm. Borgf., sem samgmn. hafði ekki mælt með. Var þá sýnilegt, að boðorð það, sem samgmn. setti, var brotið, og fyrir því flytjum við, þm. Skagf., aftur brtt. okkar um veginn frá Varmahlið fram Skagafjörðinn, en nú förum við aðeins fram á, að tekinn verði í tölu þjóðvega kaflinn frá Varmahlíð fram að Mælifelli, en það er ekki nema helmingur leiðarinnar fram í Goðdali. Till. þessi er flutt fyrir eindregin tilmæli frá sýslunefnd Skagfirðinga; þó munum við taka hana aftur, ef aðrir þm., sem brtt. eiga við frv. að þessu sinni, taka till. sínar aftur.

Ég get með engu móti fallizt á það í ræðu hv. frsm. samgmn., að sjálfsagt sé að fylgja í öllu till. vegamálastjóra um þessi mál. Mér finnst sjálfsagt að taka töluvert tillit til till. hans, en að leggja allt vald um þessi mál í hendur hans tel ég ekki rétt. Hitt get ég fallizt á, sem hv. frsm. samgmn. sagði, að máli þessu sé stefnt í hreinan voða, ef nú væri farið að samþ. nýjar brtt. við það. Ég fyrir mitt leyti vil leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt í því formi, sem það er nú, því að ég legg áherzlu á, að það komist í gegnum þingið að þessu sinni, enda þótt við þm. Skagf. séum ekki sem ánægðastir með það.