18.04.1940
Efri deild: 41. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (1892)

16. mál, vegalög

Frsm. meiri hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti! Þetta frv., sem liggur hér fyrir um breyt. á vegal., kom hingað frá hv. Nd. N. gat ekki orðið sammála um það, eins og sjá má á þeim tveimur nál., sem fram eru komin á þskj. 493 og 491. Tveir af okkur litum svo á, að eins og þessum málum væri nú komið, þá sé ekki rétt að samþ. þetta frv., og skal ég leyfa mér að segja nokkur orð um þá afstöðu okkar, þótt gerð sé grein fyrir henni í nál. okkar á þskj. 491. Skal ég þá fyrst benda á, að þjóðvegirnir, sem nú eru í landinu, eru enn sem komið er meira og minna óbílfærir eða rétt slarkandi bílfærir. Skal ég í því sambandi benda á, að í aðeins þremur sýslum eru allir þjóðvegirnir orðnir bílfærir. Það er í Borgarfjarðarsýslu, Austur-Húnavatnssýslu og Rangárvallasýslu. Þá vil ég einnig í þessu sambandi benda á, hvernig þetta mál er komið hér inn á Alþingi. Hv. þm. Borgf. flytur fyrst frv. um breyt. við vegal. inn á Alþ., - þm. fyrir kjördæmi, þar sem allir þjóðvegir eru bílfærir og sumir ágætlega góðir. Af sýsluvegum þar er 1/3 hlutinn bílfær, annar þriðjungurinn slarkandi bílfær mestallt árið, en 1/3 er ekki bílfær enn, en unnið að lagningu þeirra nú árlega. Og svo leggur hann til með frv. sínu, að þessi þriðjungur, sem ekki er bílfær ennþá, verði tekinn í þjóðvegatölu og þar með öllum óbílfærum vegum, sem nú eru sýsluvegir, létt af sýslunni. Þannig ber málið að hér á Alþingi, að þm. úr kjördæmi, þar sem allir þjóðvegir eru bílfærir, helmingurinn ágætlega og hinn helmingurinn sæmilega bílfær, 1/3 af sýsluvegunum bílfær, 1/3 slarkfær og 1/3 óbílfær, kemur með till. um að taka þennan síðasta þriðjung upp í þjóðvegatölu, og nær saman um sig svo mörgum Nd.-mönnum, að frv. er hingað komið. Þá vil ég benda á, að nú er mislangt komið að gera þá þjóðvegi, sem þegar eru í l., akfæra. Í 3 sýslum eru óakfærir af þeim vegum, sem þegar eru komnir í þjóðvegatölu, innan við 10 km. Í Vestur-Húnavatnssýslu eru t. d. aðeins 0,8 km. óakfærir, í Vestur-Skaftafellssýslu 9,3 km., í Mýrasýslu 9,5 km. Hinir þjóðvegirnir í þessum sýslum eru allir orðnir akfærir. Þá koma næst 2 sýslur, sem hafa á milli 10 og 20 km. þjóðvegi, sem eru óbílfærir. Það eru í Eyjafjarðarsýslu 13,8 km. og Dalasýslu 15 km. Í 3 sýslum eru frá 20–30 km. óakfærir enn. Það eru Vestur-Ísafjarðarsýsla með 26,7 km., Gullbringu- og Kjósarsýsla með 27,5 km. og Árnessýsla með 28,6 km. Í Skagafirði eru 31,2 km., í Strandasýslu 42,1 og Norður-Ísafjarðarsýslu 49 km., í Norður-Þingeyjarsýslu 54,5, Austur-Skaftafellssýslu 63,7, Suður-Þingeyjarsýslu 67,3, Barðastrandarsýslu 79,1, Suður-Múlasýslu 90,3, Snæfellsnessýslu 98,3 og í Norður-Múlasýslu 161,2 km óakfærir af þeim vegum, sem þegar eru komnir í þjóðvegatölu. Svona er ástandið nú. Alþ. er búið að ákveða, að þessir vegir skuli vera þjóðvegir og að þeir skuli gerðir bílfærir, og þetta er eftir. Og þrátt fyrir að mikið hafi áunnizt, eru nokkrir partar af því, sem bílfært er kallað, aðeins rutt. Það liggur fyrir skýrsla frá vegamálastjóra um, hversu mikið það er í hverri sýslu, sem er lítt eða ekki akfært. Það er t. d. ekkert í Gullbringu- og Kjósarsýslu, ekkert í Borgarfjarðarsýslu, lítið eitt í Mýrasýslu o. s. frv.

Nú skilst mér, að Alþ. hafi með því að gera einhvern veg að þjóðvegi tekið á sig vissar skyldur gagnvart þeim vegi, fyrst og fremst að halda honum við, og í öðru lagi að kosta lagningu hans, en ekki ákveðið hvenær. Hvað viðhaldið snertir, þá verðum við að horfast í augu við þann sannleika, að á því síðasta ári, sem skýrslur eru um, var eytt í vegaviðhaldið til þjóðveganna 830000 kr. Ég verð að segja það frá ferðalagi mínu um landið í fyrravor, að ég hefi aldrei séð vegi eins vel farna undan vetrinum og þá, enda viðhaldsféð minna en oft áður. Vegamálastjóri segir, að þessi upphæð sé það allra minnsta, sem hægt sé að komast af með, og verði þó að vanrækja það dálítið, af því að upphæðin sé of lítil. Alþ. hefir ekki séð sér fært að láta hann hafa svona mikið fé nú, heldur hefir lækkað upphæðina niður í 750000 kr. Hann á þannig að hafa ennþá minna fé en ráðgert var síðasta ár. Nú er það hinsvegar vitanlegt, að kaup verkamanna hefir hækkað og mun hækka meira, og í öðru lagi mun kostnaður við viðhald þeirra vega, sem hér á að bæta við, verða 33000 kr. minnst, og þá miðað við dagkaup eins og það var í fyrra. Hv. form. fjvn. sagði við mig í gær í einkasamtali, að framlagið til vegaviðhalds væri aðeins áætlunarupphæð, það yrði að greiða það, sem þyrfti. Ég veit ekki. hvoru ég á að trúa, þegar hann segir það og lýsir yfir, að verið sé að gera fjárl. sem næst því, sem þau muni verða í veruleikanum, en það er alveg víst, að ef við samþ. að bæta þessum vegum við þjóðvegina, þá hækkar viðhaldið eða það gengur út yfir þá vegi, sem fyrir eru, og þeim verður verr haldið við. Til viðbótar við það, að vegaviðhaldið er ekki áætlað nema 75000 kr., þó að við vitum, að það hafi orðið 830000 kr., þá vill nú Alþ. fara að samþ. að bæta þar ofan á nýjum þjóðvegum, þar sem viðhaldið kostar 35000 kr. Og þrátt fyrir það að Alþ. telur, að vel geti farið svo, að það verði að skera þetta niður um 1/3 hluta eða rúmlega það, þá telur það samt rétt að bæta við vegum, sem kostar 35000 kr. að halda við. Þetta finnst mér ekkert vit. Ég verð að álíta, að þeir, sem geta verið með þessu, hafi gróflega litla ábyrgðartilfinningu eða þá að þeir séu að leika einhvern blindingsleik til þess að sýna einhverjum kjósendum, að þeir hafi komið inn á vegalög einhverjum vegi, þó að vitað sé, að það verði til þess eins að draga úr, að þeim vegi eða öðrum vegum á landinu verði eins vel haldið við og ella væri.

Þá er annað sjónarmið, og það er það, að sýsluvegirnir eru alstaðar lagðir að nokkru leyti fyrir sýslufé og að nokkru leyti fyrir landsfé. 1933 voru samþ. 1. nr. 102 um framlag til akfærra sýsluvega, sýsluvegasjóðslögin svokölluðu. Með bráðabirgðabreyt. nokkurra laga var samþ. að lækka þetta, en þó látið vera nokkuð. Nú hygg ég, að ekki orki tvímælis, að þessir vegir, sem sýslurnar eru að baksa við að leggja, potast smátt og smátt í þá átt, sem þeir eiga að vera. Hinsvegar er reynslan sú, og má nefna þess mörg dæmi, að þegar búið er að taka slíka vegi í þjóðvegatölu, þá hættir sýslan að leggja fé til þeirra, en gerir aðra vegi að sýsluvegum, sem venjulega hafa miklu minni þýðingu, og þannig líða nokkur ár, að allt stendur við það sama, af því að ekki fæst fjárveiting til veganna úr ríkissjóði, en á sama tíma heldur sýslan áfram að leggja fé í minna nauðsynlega vegi, sem hún hafði gert að sýsluvegi í stað hinna, er gerðir voru að þjóðvegum. Þess vegna verður það oft til þess að tefja fyrir, að vegirnir væru lagðir, að þeir eru teknir í þjóðvegatölu, og stundum verða lagðir og fullgerðir aðrir vegir, sem þá hafa orðið að sýsluvegum, en öllum ber saman um, að síðar áttu að leggjast. Þetta er önnur ástæðan, sem verður að athuga, þegar litið er á þetta mál í heild.

Þá vil ég enn benda á, að vegirnir eru í eðli sínu mjög misjafnir. Margir vegir eru þannig, að það er sjálfsagt, að öll þjóðin standi að þeim, því að þeir eru þjóðvegir í þess orðs réttu merkingu. Hinsvegar er það kunnugt, að það eru margir vegir, sem ekki er hægt að segja það um, því að þeir hafa ekki þýðingu nema fyrir takmarkaðan fjölda fólks innan vissra svæða. Þeir eru að réttu lagi héraðavegir. Ég hefi litið svo á, að sú stefna, sem upp er tekin í sýsluvegasjóðslögunum, sé sú rétta, og eins þar sem svo er fyrir mælt í vegalögunum, að hægt sé að krefjast ákveðins framlags frá viðkomandi hreppi, ef sérstaklega stendur á; það álít ég, að sé rétt stefna. Ég álít, að núverandi þjóðvegum eigi að halda uppi að nokkru leyti af heildinni, en að nokkru leyti af viðkomandi héruðum. Vegamálastjóri hefir liðað vegina sundur, eftir því sem honum finnast þeir eiga að vera flokkaðir á þennan hátt. Ég lít svo á og sá hv. samnm. minn, sem stendur að þessu meirihl.nál. með mér, að rétt sé að flokka ekki einu sinni þá vegi, sem nú eru komnir inn í þjóðvegatölu, heldur einnig þá, sem hér liggja fyrir og hafa legið fyrir í allskonar brtt., og ýmsa aðra vegi, sem hafa ekki legið hér fyrir. Þeir yrðu flokkaðir þannig, að í flokki sér yrðu þjóðvegir, sem ríkissjóður ætti að bera allan kostnað af, en sér í flokki yrðu aftur héraðavegir, sem ríkið bæri ákveðinn hluta af og viðkomandi hérað ákveðinn hluta, og svo gæti vel verið að rétt væri að flokka héraðavegina í tvo flokka; í öðrum flokknum væru þeir, sem væru meira áríðandi og ríkið stæði undir að langmestu leyti, og svo aðrir, sem ríkið stæði ekki undir nema að nokkru leyti, að helmingi eða kannske ekki það.

Við álítum því að þessar ástæður allar sýni fullkomlega, að þörf sé á að taka vegalögin í heild til endurskoðunar. Svo er líka önnur ástæða, og hún er sú, að sumstaðar hafa þjóðvegirnir verið lagðir eftir þeim leiðum, sem nú er hætt að fara, eins og í Austur-Skaftafellssýslu. Þjóðvegurinn liggur þar eftir Mýrunum og yfir Hornafjarðarfljót, en síðan bílferjan kom yfir Hornafjarðarós, er farið niður á fjörur og eftir þeim. Þetta er sjálfgerður vegur nema á nokkrum parti, og vegamálastjóri hefir orðið að sjá um hann, þótt hann sé ekki þjóðvegur. Þess vegna hlýtur að vera brýn þörf að endurskoða öll þjóðvegalögin, og jafnframt lít ég svo á, að óforsvaranlegt sé af Alþ., þegar það veit, að þörf er á að láta meira en 800000 kr. í vegaviðhald og þarf að skera niður nauðsynlegustu upphæðir, að leyfa sér að skera viðhaldið niður í 750000 kr. og með því segja vegamálastjóra að hafa vegina þannig, að ekki sé hægt að fara um þá, því að það er það, sem Alþ. segir. Og á sama tíma er það óforsvaranlegt að taka þar til viðbótar 5–600 km. í þjóðvegatölu og segja svo vegamálastjóra að dreifa þessu fé enn betur, líka á þessa vegi, og láta svo allt drabbast niður ennþá meir. Ég álít það ábyrgðarleysi af þeim, sem gera þetta, og óforsvaranlegt í alla staði. Sömuleiðis er það, að upp undir 2/3 af þeim vegum, sem hér á að taka í tölu þjóðvega, eru sýsluvegir, sem nú er verið að leggja af sýslunum með framlagi frá ríkinu í móti. Allt þetta stöðvast með því að gera þá nú að þjóðvegum. Og hvenær treysta hv. þm. sér til að leggja með, að veitt verði framlag úr ríkissjóði til nýbygginga þessara vega? Hefir fjvn. ekki þótt fullerfitt að leggja eitthvað fram til þeirra vega, sem nú þegar eru þjóðvegir?

Af þessum ástæðum öllum leggur meiri hl. til, að frv. verði afgr. með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá: [Sjá þskj. 491].