18.04.1940
Efri deild: 41. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í B-deild Alþingistíðinda. (1893)

16. mál, vegalög

*Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Það er ekki mikið eftir af fundartímanum, en þetta málefni er svo gott, að það mælir með sér sjálft.

Ég er hissa á hv. 1. þm. N.-M., að hann skuli eyða svona miklum tíma til að sýna fram á fánýti vega, því að ég veit ekki betur en að hann sé mjög aðgangsmikill um vegi fyrir sitt kjördæmi.

Ég vil segja honum frá því, að ein mesta sandeyðimörk hér á landi er svæðið frá Möðrudal til Vopnafjarðar. Það hefir verið reynt að gera þessa eyðimörk bílfæra. Hver hefir gagn af þessu? Það eru Vopnfirðingar og engir aðrir. En hvers vegna hafa Vopnfirðingar fengið veg? Það er af því, að til eru menn, sem líta öðruvísi á málin en þessir hv. þm., sem standa að þessari dagskrá, og fara ekki í hreppapólitík. Ég hefi átt mikinn þátt og meiri en þessi hv. þm. í að útvega fé í vegi til Vopnafjarðar. En það er ekki hægt fyrir hv. 1. þm. N.-M. og þá, sem eru uppbótarþm. þaðan, að koma til þm. og biðja þá um að vera með vegum þar eystra, þegar þeir geta ekki vitað til, að annarstaðar séu lagðir vegir. Öll ræða hv. 1. þm. N.-M. byggðist á þeirri skoðun, sem var hér ríkjandi, áður en bílarnir komu. Þá var reynt að gera smáspotta, og þegar bílarnir komu og hleyptu krafti í þessa hluti, þá voru aðeins til smáspottar út frá Akureyri og fáeinum öðrum kaupstöðum, vegurinn yfir Fagradal og austur yfir heiði. Það gekk allt eftir þessu músarholusjónarmiði, sem dagskráin er byggð á. En það kom nýr andi yfir fólkið, og frv. það, sem hér liggur fyrir, er runnið frá þeim sama anda. Frv. er byggt á því að byggja vegi áfram og koma þeim lengra, nota þær þúsundir af fólki, sem nú hafa ekkert að gera, gefa þeim tækifæri til að vinna í vegum. Þetta þarf í sjálfu sér ekkert að rökræða, og það er undarlegt eftir allt, sem gert hefir verið, eftir að búið er að leggja tugi þúsunda í að gera sumarbílfæran veg til Vopnafjarðar, — það væri undarlegt, ef svo ætti að hætta, — ef ætti að segja fólkinu, — ef það ætti að vera gleðiboðskapurinn til þess frá þessum hv. þm. Vopnfirðinga, sem ætti að tilkynna fólkinu í útvarpinu, að það hefði nú tekizt að drepa þetta frv., — ef fólkið ætti að fá það eftir að hafa tapað mestu af sínum markaðsmöguleikum í Noregi, í Póllandi, í Þýzkalandi, og fallinn markað í Ameríku, — ef svo á þar á ofan að segja því, að það fái ekki meiri vegi. Það er ekki ámælisvert, þó að búið sé að gera veg til Vopnafjarðar, en nú geta þessir þm. þakkað þeim, sem koma nú fram með sín áhugamál. Hér er lítil brtt., sem hv. þm. Dal. flytur, og ég er með brtt. um veg í Bárðardal. Það má segja, að það sé engin goðgá að stinga upp á, að Dalamenn fái veg, sem kemur þeim í samband við kaupstað, og Bárðdælir fái veg eftir sinni sveit, þar sem dugandi menn eru að berjast við mikla örðugleika og hafa ekki veg, heldur en að eigi að fara að leggja 50 km. veg yfir sandauðnina til þess að þm. Vopnfirðinga geti komizt heim til sín.

Nú gat hv. þm. ekki komizt hjá því að lesa upp úr sínu nál. til þess að sanna þær vitleysur, sem eru í því skipulagi, sem hann hefir. Hann talaði um, að búið væri að breyta þjóðveginum í Austur-Skaftafellssýslu, þar væri komin ný leið með bílferju yfir Hornafjarðarós. Hvers vegna er þá hv. þm. að berjast með hnúum og hnefum, fölskum tölum og allskonar vitleysum fyrir, að þetta eigi að vera svona, hreppavegurinn eigi að vera þjóðvegur og þjóðvegurinn eigi ekki að vera neinn vegur? Hæstv. vegamálaráðh. er svo settur, að í hans kjördæmi er einn af aðalvegum landsins, Grindavíkurvegur. Hann er ekki þjóðvegur, og svo berjast þessir hv. þm. fyrir af allri sinni getu, að hann verði ekki viðurkenndur, og ég veit þó ekki, hvaða vegur á að vera þjóðvegur, ef það er ekki vegurinn frá Vogastapa til Grindavíkur, vegurinn, sem Grindvíkingar börðust fyrir að leggja sjálfir, — lögðu á sig gífurlegar fórnir til að koma honum upp og lögðu hlut á hvern bát til þess að unnt væri að framkvæma það. Nú segir þessi hv. þm.: „Þessi vegur á ekki að vera þjóðvegur, en sandauðnin frá Möðrudal til Burstarfells á að vera þjóðvegur, og það á að spara allt í hana.“

Það er nú komið að fundarslitum, svo að ég sé ekki ástæðu til að ræða frekar um þetta, en afdrif frv. fara alveg eftir því, hvort músarholusjónarmiðið á að fá að komast að í vegamálunum.