18.04.1940
Efri deild: 41. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 763 í B-deild Alþingistíðinda. (1894)

16. mál, vegalög

Frsm. meiri hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti! Ég þarf ekki miklu að svara hv. þm. S.-Þ. Þó voru það tvö eða þrjú atriði úr hans ræðu, sem mig langar sumpart til að fá skýringu á, og sumpart vil ég svara nokkuð.

Hv. þm. S.-Þ. sagði, að ég falsaði tölur. Ég krefst þess ákveðið, að hann nefni, hvaða tölur það eru. Ég hefi tölurnar frá vegamálastjóra, og ef það er vegamálastjóri, en ekki ég, sem hv. þm. segir, að hafi falsað þessar tölur, sem ég nefndi, þá svarar vegamálastjóri því sjálfur, enda þó hann geti það ekki hér á þingi. En eins og það kom fram í ræðu hv. þm. S.-Þ., þá bar hann mér það á brýn, að ég hefði falsað tölur. Hér liggja tölurnar á þessu blaði, og ég óska ákveðið eftir, að hv. þm. gefi upp, hvaða tölur ég hafi falsað.

Þá sagði hv. þm., að ég væri með eitthvert músarholusjónarmið. Nú er mér ekki ljóst, hvaða sjónarmið hv. þm. kallar músarholusjónarmið í þessu máli. Ég veit ekki, hvaða sjónarmið músin hefir til samgangna í holu sinni. En ég geri ráð fyrir, hvað sem öðru líður, að músinni sé í brjóst borið, eins og öðrum verum, að vilja lifa og vilja hafa greiðan gang út úr holunni, það sé fyrst og fremst hennar sjónarmið, og það sé það, sem hv. þm. S.-Þ. kallar hér músarholusjónarmið. Það er flestum verum eðlilegt að vilja hafa sjálfsbjargarviðleitni. Þegar ég yfirfæri þetta á þjóðfélagið, þá verður það fyrst fyrir í þessu sambandi, að fólkið þarf að komast yfir landið eftir þeim vegum, sem búið er að leggja eða lofa því að leggja. Hvernig hefir hv. þm. S.-Þ. og hæstv. Alþ. rækt þetta? Jú, þegar vegamálastjóri hefði átt að fá 830 þús. kr. til viðhalds á vegum, eins og eytt var síðastl. ár, þá er hann látinn hafa 750 þús. kr., og má öllum vera ljóst, sérstaklega þegar tillit er tekið til þess tvenns, að kaup hefir hækkað, svo dagsverk fyrir sömu fjárupphæð verða færri, og að viðhaldið hefir verið af vanefnum gert og ófullnægjandi, að með þeirri upphæð verður viðhald veganna það lélegt, að þeir ganga úr sér. Þetta er þá rækt á þann hátt, að láta göngin frá músarholunum falla saman. En á sama tíma er ákveðið að grafa ný göng með því að taka á ný í þjóðvegatölu nýja vegi. Og ef við færum að heimfæra þetta upp á till., sem hér liggja fyrir, þá gæti verið um tvær eða þrjár músarholur að ræða í kjördæmi hv. þm. S.-Þ. Inn í Bárðardal liggja göng, sem þeir hafa grafið sjálfir, og þingið hefir ákveðið, að ein músagöng skuli liggja út í Kinn, og það skyldi maður ætla, að hv. þm. S.-Þ. legði til, að þessi göng væru nú grafin. En það gerir hann ekki. Hann vill létta af Bárðdælingum að halda opnum göngunum frá sér, þó hann viti, að það gerir hann verr fallinn til að uppfylla þær skyldur, sem hann hefir tekið sér á herðar með lagningu þjóðvega, sem þegar eru komnir í þjóðvegatölu, eins og Kinnarvegarins. Það er eftir 60,3 km. af þeim vegi, sem ákveðið er að leggja í Þingeyjarsýslu sem þjóðveg. En áður en á að sjá um, að það sé gert, vill hv. þm. S.-Þ. láta þingið taka á sig nýjar skyldur, en hina bíða, þó þeim fyrir löngu hafi verið gefin von um vegina. Mér skilst, að þetta sé músarholusjónarmiðið, og það sé hv. þm. S.-Þ., sem það hafi, en ekki ég.

Þá talaði hv. þm. um það, að þjóðvegur væri frá Austurlandi og niður í Vopnafjörð, og væri búið að eyða í hann allmiklu fé, og þetta væri sandauðn. Og það var svo að heyra, að það væri alveg óverðskuldað að leggja fé í þann veg. Ég skal benda á það, að þegar þessi vegur var tekinn í þjóðvegatölu og fyrst veitt til hans fé, lá fyrir tilboð um að leggja allan veginn fyrir 18600 kr. frá Möðrudal og niður á Brúnir og gera það í akkorði. En fjvn., sem hv. þm. S.-Þ. átti þá sæti í og var form. fyrir, vildi ekki sinna þessu tilboði. Vegamálastjóri lagði á móti því og taldi, að vegir, sem væru lagðir fyrir akkorð, væru ekki líkt því eins vel gerðir og þeir, sem hann léti gera. Og þess vegna var þetta ekki gert. En vegurinn varð miklu dýrari heldur en hann hefði orðið í akkorði, en hann er kannske betur gerður heldur en ef hann hefði verið gerður í akkorði; það er ekki gott að dæma um það, því þótt við sjáum, hvernig hann er nú, er ekki hægt að segja, hvernig hann hefði verið gerður í akkorði. Það hvað þessi vegur verður yfir 18600 kr. er því að öllu leyti að kenna fjvn., og þá fyrst og fremst form. hennar. Annars er nú vegurinn ekki kominn alla leið enn, þótt hv. þm. S.-Þ. teldi svo í fávizku sinni.

Það, sem skiptir máli, er, hvort á að fara inn á það sjónarmið, að þenja vegakerfið út, samhliða því sem allir viðurkenna, að ekki sé hægt að leggja nægilegt fé til þess að leggja vegi og halda þeim við, og hvort það á að bæta við vegaköflum, sem vitað er að kosta 35 þús. kr. bara í viðhaldi, og hvort það á að láta þau sýslufélög, sem nú eru að leggja þessa vegi með framlagi úr ríkissjóði á móti, gera það áfram, og láta bíða að bæta þessum nýju vegum við þjóðvegi, þangað til ríkið getur lagt til þeirra, sem getur vart orðið fyrr en 1942, þar sem nú eru þegar samþ. fjárl. fyrir 1941. Á að láta drafnast niður viðhaldið á hinum vegunum, sem komnir eru með því að minnka fé til þess með því að taka af fé því, sem fyrir er, til viðhalds þessara nýju vega?

Ég álít þessa stefnu óheilbrigða. Ég álít, að það heilbrigðasta í þessu máli sé að endurskoða alla vegalöggjöfina.

Þá minntist hv. þm. á það, að ég hefði bent á sem dæmi vegi, sem vegamálastjóri sæi um viðhald á, sem ekki væru þjóðvegir, og átti þar við veginn eftir fjörunum frá Flatey að Melatanga, og að ég hefði haft þetta úr nál. hans. Það getur verið, að hann minnist á þetta í nál. sínu, en ég hefi ekki lesið það, enda var því útbýtt nú á fundinum. En hvernig bætir hann úr þessu? Vegur þessi er þegar kominn í þjóðvegatölu í Nd., en samhliða ætlast hv. þm. S.-Þ. til, að jafnframt haldi vegamálastjóri við vegi, sem liggur samhliða þessum vegum, sem hann kallar „ómerkilegan hreppaveg“, sem ekki komi heildinni neitt við. Það er ekki verið að leiðrétta vegal. með þessu. Það þarf að leiðrétta öll vegal. í heild, og þá er ekki vafi á því, að ýmsir vegir, sem eru komnir á vegal., eiga ekki að vera þjóðvegir. Það eru aðrir í þessum till., sem eiga að vera þjóðvegir, og aðrir, sem eiga að vera héraðavegir, og svo eru vegir, sem hvergi eru í þessum till., sem eiga að vera héraðavegir. Og það, sem við viljum, er, að þessu máli verði vísað til ríkisstj. til þess að hún láti endurskoða vegal. og leggja síðan málið fyrir næsta þing.

Það hefir komið fram í ræðu hv. þm. S.-Þ. o. fl., að við værum með þessu að sýna vegamálunum í heild óvilja. Við vildum ekki veita fé til nýrra vega. Heldur nú hv. þm. S.-Þ. að féð, sem varið sé til vegagerða 1940 og 1941, vaxi, þó samþ. séu þessi lög? Hann er að tala um, að nú þurfi að vinna að vegagerð, eins og það standi í einhverju sambandi við þetta frv. Er ekki búið að samþ. fjárl. og ákveða, hvað leggja skal til vega? Ég veit ekki betur, og þó hv. þm. S.-Þ. sé sjaldan í deildum þingsins, fylgist hann væntanlega það með málum, að hann veit þetta. Allt hans tal um þörf vinnu nú í sambandi við þetta mál er því vitleysa ein. Og það hefir verið sagt, að það sæti illa á mér að vera á móti því, að sveitakjördæmi fái vegi. Hverjir eru á móti því? Eru þeir á móti því, sem vilja láta leggja vegaspotta, þó að ekki sé nema fyrir litla upphæð á hverjum stað, eða hinir, sem vilja koma vegum í þjóðvegatölu, sem leiðir það af sér að engu verður við þá bætt fyrst um sinn? Eða eru það þeir, sem vilja láta sýslurnar og ríkið leggja fram í þessa vegi og halda þeim áfram smátt og smátt með eðlilegum hætti, þangað til þeim verður markaður bás þar, sem þeim er eðlilegast að vera í lögunum? Ég er alls ekki viss um, hver leggur meir á móti vegamálunum yfirleitt, þessir hv. þm., sem hafa borið mér þetta á brýn, eða við, sem höldum hinu fram og viljum láta endurskoða alla vegalöggjöfina. Hitt er annað mál, að ef vegirnir komast í þjóðvegatölu, verður vonandi einhverntíma í náinni framtíð hægt að leggja þá á ríkisins kostnað, en þeir stoppa í bili, þegar þeir fara úr sýsluvegatölu, því fjárveitingunni, sem fá á í sýsluvegi með framlagi á móti, verður ekki varið til þeirra, eftir að þeir eru komnir í tölu þjóðvega. Það er þess vegna alveg rangt að vera að tala um í þessu sambandi, að einn sé á móti vegalagningu og annar ekki.

Ef þetta frv. yrði að l. eins og það kemur frá Nd., myndi lengd þjóðveganna aukast um 10% og viðhald veganna eitt aukast um 35 þús. kr. minnst, eftir áætlun vegamálastjóra. Við í meiri hl. samgmn. álítum slíkt vera ábyrgðarlaust og því fulla þörf á í þessu máli, að hér verði horfzt í augu við veruleikann, og vegal. verði endurskoðuð og þeim skipað í heilbrigðara form heldur en þau nú eru í.