18.04.1940
Efri deild: 41. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í B-deild Alþingistíðinda. (1896)

16. mál, vegalög

*Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Hv. 1. þm. N.-M. gekk nú eiginlega inn á þetta þrönga sjónarmið, sem ég hafði talað um. En hann talaði eins og það væru mýs, fólkið í sveitinni, og að það væru mýs í Bárðardal. Og það eru víst sjálfsagt mýs í Vopnafirði og í Hjaltastaðaþinghá. En ég mótmæli því algerlega, að mínir kjósendur í Suður-Þingeyjarsýslu séu mýs. En ég skal ekki segja, hverjir það eru, sem kjósa hv. 1. þm. N.-M. Hinu verður ekki neitað, að réttari samlíking með þessu orði er að nota það í sambandi við þá tregðu í vegamálum, sem lýsir sér í hugsunarhætti hv. 1. þm. N.-M. Hv. 1. þm. N.-M. reyndi ekki að mótmæla því, að vegna þess stórhugar í vegamálum á undanförnum árum, þá er vegagerðin komin eins langt eins og hún er komin. Við nokkrir þm. fórum um kjördæmi hv. þm. árið 1928, seint á sumri. Og ef maður fer um það kjördæmi nú og athugar alla þá vegi og brýr, sem gerðar hafa verið síðan, þá stafar það af því, að þm., sem ferðuðust þarna þá, sannfærðust um það, að fólkið, sem þarna býr, hefði rétt fyrir sér að óska eftir vegabótum þar. Það er hætt við, að biðin hefði orðið nokkuð löng, ef við hefðum átt að bíða aðgerðalausir eftir því, að það yrði rannsakað samkv. rökst. dagskrá Alþingis af ríkisstjórn og hlutaðeigandi aðilum. Ég verð að segja, að mér finnst hv. þm. ekki komast vel frá þeirri hliðstæðu, sem ég tók frá Vopnafirði. Þar hafa þeir góða höfn og samgöngur innan sveitar, en eru einangraðir frá vegakerfi landsins og óska nú eftir vegi ofan af Fjöllum. Hv. þm. langar til þess, að þeir fái hann, — en hvenær mundi það verða, ef aðrir hefðu sama músarholusjónarmið og hann? Kannske aldrei. En við skulum alls ekki fara þannig að, við skulum leggja þennan veg eins fljótt og hægt er, og líka veginn út á Skarðsströnd, sem hv. 1. þm. N.-M. er á móti. Framkoma þessa hv. þm. er jafnóverjandi fyrir því, þó að við látum ekki kjósendur hans gjalda hennar. Það þarf oft færri menn til þess að gera skaða en gagn, og hér þyrfti ekki nema fáeina af þeim mönnum, sem líkjast þessum hv. þm., til að vinna óbætanlegt tjón. Ég skal segja ofurlitla dæmisögu um mann, sem var ráðunautur í Búnaðarfélaginu og þm. fyrir myndarlegt kjördæmi. Hann hafði lengi vel ágætt upp úr því að setja sig upp á móti öllu því, sem hann hélt hann gæti stöðvað fyrir öðrum. En kjósendur hans áttuðu sig á því, áður en lauk, að hann kom anzi litlu fram á þingi af því, sem til gagns horfði; menn lærðu að beita hann sömu aðferð og hann beitti aðra. Nú geta menn athugað að taka upp þessa aðferð, þegar það er verðskuldað. — Það fór svo, að búnaðarfélagsráðunauturinn, sem vanur var að setjast á hvern hlóðarstein í kjördæminu og tala við hverja kerlingu, hann féll, — á músarholusjónarmiðinu. Ég verð að segja það, að mér þætti leiðinlegt, ef þetta ætti eftir að koma fyrir þennan hv. flokksbróður minn.

Ég hefi tekið fyrir tvær hliðar á þessu máli. Ég er ekki þm. Eyf. og því síður Siglfirðinga, það er ekki af því, sem ég hefi gert það, sem ég hefi getað, bæði persónulega og á flokksfundum, til að flýta fyrir vegi yfir Siglufjarðarskarð. Fyrir nokkrum árum voru till. um það kolfelldar, en nú er búið að koma því inn í vitund manna, að þetta sé nauðsynjamál, sem ekki megi stöðva, og þótt það væri drepið í bráð á síðasta þingi, vissu allir, að það gæti ekki staðið lengi. Nú var við afgreiðslu fjárl. stigið rösklegt spor áleiðis. Það er ekki furða, þótt hv. 1. þm. N.-M. mæti mér sem andstæðingi í þessu efni, því að ég er þar búinn að liggja á allt öðru plani en hann í mörg ár. Vegna þessa víðara sjónarmiðs hefi ég vanrækt hluti í mínu eigin kjördæmi. Spurningin, sem ég vil leggja fyrir hann, er þessi: Eiga þröng kjördæmasjónarmið rétt á sér eða á að líta á nauðsyn alls landsins og m. a. atvinnuþörfina, — nú þegar þannig stendur á fyrir sjávarútveginum, að sumum íshúsum og útgerðarmönnum þykir ekki borga sig að framleiða ísfisk fyrir enska markaðinn, hvað þá að fisksöluútlitið sé glæsilegt á öðrum sviðum? Ég hygg, að þeir, sem atvinnu missa, þiggi að vinna við vegagerð, ef þess er kostur.

Það liggur ekki fyrir til umr. nú, hvort leggja eigi niður þjóðvegi eins og Mýraveg, þegar þjóðvegur er kominn eftir Melatanga. Ég geri ráð fyrir, að það verði athugað á sínum tíma. Enn síður kemur tölumoðið málinu við. Upp úr því fást ekki nema falsrök, þegar á að flækja menn með talnaröðum. Einn hv. þm., sem nú er dáinn og ég ætla ekki að nefna, var vanur að hugsa alla hluti í tölum. Þessi maður raðaði einu sinni tölunum þannig, að hann gat byggt það á þeim að hækka ísl. krónuna stórkostlega á árunum 1923–26. En það var aðeins byggt á tölum, ekki sjálfu lífinu. Og var það ekki röksemdafölsun? Hvað ætli útgerðarfyrirtækin, sem töpuðu þarna 2 millj. kr., segi um það? Eða ef maður tekur Eyjólf Jóhannsson í Mjólkurfélaginu og Sveinbjörn Högnason í Mjólkursamsölunni og ber saman þeirra tölur, — hvað hefir maður upp úr því? Það er auðvitað gott að hafa tölur með, en alveg tilgangslaust að þylja þær upp eins og hv. 1. þm. N.-M. gerir oft. Hvað þýða allir þessir km. eða kannske ég segi heldur kg. af sandi ofan af Hólsfjöllum í Vopnafjörð? Lífið sýnir okkur aftur á móti mun á vegi um auðn og vegi um byggð, eins og þar sem vegurinn frá Ásgarði út eftir Fellsströnd á að liggja. Ég vil ekki hlusta á tómt tölumoð og slúður, heldur röksemdir lífsins. Ég veit, að það er réttara að leggja veginn í Dalasýslu en öræfaveginn. En ég vil leggja báða vegina.

Nú hefi ég svarað þessum hv. þm. nægilega. Bæði hann og aðrir hv. þm. skulu vita það, að þeim mun ekki takast að ósekju að halda fram músarholusjónarmiðum sínum.