18.04.1940
Efri deild: 41. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (1897)

16. mál, vegalög

Frsm. meiri hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti! Ég þarf litlu að svara hv. þm. S.-Þ. (JJ). Hann viðurkenndi með þögninni, að tölurnar, sem ég tók, væru réttar og að hann hefði farið með rangt mál, þegar hann sagði, að þær væru falsaðar. Bollaleggingar hans um, að Jón Þorláksson hafi dregið rangar ályktanir af tölum, koma mér ekki við, en leitt þykir mér, að hann af því skuli hafa orðið svo hræddur nú að gera hið sama, að hann skuli ekki þora að horfast í augu við veruleikann, sem hér sést bezt með tölunum. En þær tölur liggja fyrir, að í kjördæmi hans eru 67,3 km. af þjóðvegum, sem eftir er að gera bílfæra, og í öllum sýslum, nema þrem, Borgarfjarðarsýslu, Austur-Húnavatnssýslu og Rangárvallasýslu, er mikið af þjóðvegum. sem ekki eru bílfærir. Þetta skildist mér hv. þm. kalla falsrök, því að það væru bara tölur. Nei, þetta er lífið, þó að það sé sagt í tölum. Heldur hv. þm., að hann flýti fyrir lagningu þessara vega með því að minnka framlagið til viðhalds þeirra um 35 þús. kr. á ári, eins og verður, ef frv. er samþ.? Heldur hann, að hann efni gefin loforð við kjósendur sína með því að samþ. að leggja tuttugu nýja vegi jafnframt eða áður en þau loforð verða efnd að leggja þá vegi, sem enn eru ólagðir af þjóðvegum? Hann hrósar sér af því, að sjónarmið sitt sé ákaflega víðtækt. Nú hefi ég það sjónarmið, og hefi reynt að fylgja því í lífinu, að koma því í framkvæmd, sem ég hefi lofað að gera, áður en ég tæki á mig nýjar skyldur. Þegar hv. þm. (JJ) hefir lýst yfir því sem form. fjvn., að ómögulegt sé að leggja eins mikið til viðhalds vegum og vegamálastjóri telur þurfa, hvað þá auka hraðann á nýlagningum, þar til uppfyllt væru gefin loforð, finnst mér lítið vit í að dreifa kröftunum í enn fleiri staði, og mannslegra væri að reyna að koma móti fólkinu með eitthvað af því, sem maður er búinn að lofa, með því að taka veg í tölu þjóðvega og þar með gefa ákveðnar vonir um, að hann verði lagður.

Það er náttúrlega alveg misskilningur, að við, sem stöndum að nál. meiri hl., séum andvígir meiri vegalagningum. Það, sem hv. 5. landsk. (ÞÞ) sagði um það, er alveg út í hött. Hann talaði um þetta mál í sambandi við brýr og brúarlagningar. Hvað kemur það þessu máli við. Þá var hann að reyna að hjálpa hv. þm. S.-Þ. með aðdróttunum um, að tölur þær, er ég nefndi, væru ekki réttar, en þar sem hv. þm. S.-Þ. hefir nú étið það ofan í sig og reynt að skjóta sér á bak við það, að Jóni sál. Þorlákssyni hafi orðið það á að draga rangar ályktanir af tölum, þá væri hv. 5. landsk. þm. sæmra að reyna að verja þann gamla flokksbróður sinn en vera með dylgjur til hans.

Hann talaði um framlög til sýsluvega. Reynslan sýnir, að sýslur hætta að leggja í vegi, sem breytt er úr sýsluvegum í þjóðvegi, og þá hættir lagning þeirra að miða áfram um stund. En ekki er hætta á því, að sýslurnar reyni ekki að taka við tillagi ríkisins til sýsluvega og leggja eitthvað á móti. Breytingar þessa frv. mundu að öllum líkindum draga úr vegagerð af þessari ástæðu. Annars mætti vel nota heimild 12. gr. vegalaganna frá 1933 til að ákveða, að sveitarfélög eða sýslur verði að taka að sér nokkurn hluta kostnaðar við að gera þjóðvegarkafla akfæra. Með því móti mætti halda áfram slíkum vegum, þangað til ríkið sér sér fært að taka þá að sér að öllu leyti.

En þegar það kostar 800–900 þús. kr. að halda gerðum vegum við, þótt af vanefnum sé gert, þýðir ekki að bæta ofan á 35 þús. kr. viðhaldsbyrði án þess að gera sér afleiðingarnar ljósar. Vanræksla á viðhaldi hlýtur að fara vaxandi, og það hefnir sín síðar. Eina úrræðið er að flokka vegina á nýjan leik í þjóðvegi og héraðavegi (og í 3. lagi hreppavegi), ákveða, hvernig ríkið leggur fé til hvorra um sig og hvaða vegir lenda í hvorum flokki, losna við ólag eins og t. d. það að halda Mýravegi við sem þjóðvegi samhliða Melatangavegi. Jafnframt verður að bæta fyrir það óheillaspor, sem stigið var 1936 með 14. liðnum í l. um bráðabirgðabreyt. nokkurra laga, að takmarka mjög lögboðin framlög ríkisins til sýsluvegasjóða.