19.04.1940
Efri deild: 42. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í B-deild Alþingistíðinda. (1907)

16. mál, vegalög

Páll Hermannsson:

Ég vil benda á, að hér liggja orðið fyrir allmargar brtt., sumar þeirra skriflegar, og nokkrar þeirra eru í raun og veru mjög þýðingarmiklar, eins og t. d. sú, sem gerir ráð fyrir, að byrjað verði að flokka vegina og fjárframlagi ríkissjóðs verði hagað með tilliti til þess, í hvaða flokki vegurinn er. Þetta finnst mér svo þýðingarmikið, að það sé nokkurt flaustur að ganga til atkv. um slíkar till. án þess að n. fái íhugað þær. Það voru í gær skiptar skoðanir og karp um það, hvort brýn þörf væri á að taka nýja vegi inn í vegalögin. Mér finnst, að ekki þyrfti að vera neitt karp um málið eins og það er nú, en að það ætti að íhugast nánar í n. Ég vil gera það að till. minni, að umr. verði frestað og málinu vísað til aðgerða hv. samgmn. á ný, og ekki gengið til atkv. fyrr en n. hefir haft tíma til þess að athuga málið.