22.04.1940
Efri deild: 44. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í B-deild Alþingistíðinda. (1912)

16. mál, vegalög

Frsm. meiri hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti! N. hefir athugað brtt. þær, er fram eru komnar, og hefir orðið sammála um það, sem nú skal taka fram:

Að mæla með 1. lið brtt. á þskj. 509, þar sem farið er fram á að lengja akbrautina, sem endaði við Saurbæ í Eyjafjarðarsýslu, fram að Jórunnarstöðum, ásamt brautinni að Kristneshæli. Þá skilst mér a-liður undir 2. lið till. hafa verið tekinn aftur; b-liður fjallar um lítinn spotta frá Árskógsströnd niður að Árskógssandi, en þann veg verða þeir að fara, sem ætla með ferjunni út í Hrísey, sem er allstórt þorp.

Brtt. á þskj. 510 virðist aðeins vera sjálfsögð leiðrétting.

1. og 2. brtt. á þskj. 517 eru teknar aftur, en n. hefir orðið sammála um að mæla með 3. brtt. á því þskj.

Hv. þm. S.-Þ. hefir sagt okkur í n., að till. sú, er hann hefir borið fram ásamt hv. 5. landsk. og hv. 2. þm. Eyf., sé tekin aftur.

Þá er n. sammála um að mæla með brtt. á þskj. 518, sem fer fram á að leggja vegarspotta fram Fljótsdalinn. Þarna eru að vísu ár, sem þarf að brúa, en vonandi verða ekki mörg ár þangað til það verður gert. Þá mælum við einnig með þeim vegi, sem getið er í brtt. á þskj. 524.

Brtt. á þskj. 525 var tekin aftur, en brtt. á þskj. 526 mun bera að skoða sem leiðréttingu við till., er hér var á ferðinni um daginn. 2. liður á þskj. 468 er stuttur spotti frá Vesturlandsvegi í Saurbæ til Salthólmavíkur, og mælir n. með þessari till.

Ég vænti þess, að hv. Nd. muni ekkert hafa að athuga við þessar till. Vænti ég þess, að menn sjái, að ekki stoðar að leggja vegi, ef ekki er hægt að halda þeim við. Og viðvíkjandi 3. lið brtt. á þskj. 517 vil ég láta í ljós þá von, að menn líti svo á, að kostnaðurinn verði að koma að nokkru á héruðin, en ekki aðeins á ríkissjóð.