22.04.1940
Neðri deild: 48. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í B-deild Alþingistíðinda. (1932)

16. mál, vegalög

*Eiríkur Einarsson:

Mér þykir mál þetta komið í einkennilegt horf, þegar það er athugað, hvernig það lá fyrir hér síðast. Í hv. Ed. hafa verið settar inn í það till., sem koma algerlega í bága við það samkomulag, sem um málið var gert hér. Þar hafa farið fram ýmiskonar hrossakaup um málið, og m. a. hefir það verið samþ. þar, að þessir nýju þjóðvegir skuli að nokkru leyti hvíla á héruðunum. Mál þetta kemur því hingað aftur að segja má öfuga boðleið, og fæ ég ekki annað séð en að vegið sé aftan að okkur, sem til samkomulags tókum brtt. okkar aftur hér í d. Ég tel mig því, þegar málinu er svona komið, með öllu lausan við það loforð, er ég gaf, þegar samkomulagið var gert um afgreiðslu málsins hér. Ég vil því leyfa mér að bera fram brtt. um hinn svonefnda Partaveg. Það er búið að mæla með þeim vegi áður, og einnig hefir vegamálastjóri sagt, að hann teldi veg þennan eiga fullan rétt á að komast í tölu þjóðvega, talið hann einn hinn nauðsynlegasta veg, sem enn hafi ekki verið tekinn upp í þjóðvegakerfi landsins. Að ég kem með brtt. um þetta nú, er ekki gert af neinni þrákelkni, heldur sakir þess, að það er mikil sanngirniskrafa, að vegur þessi verði tekinn upp í tölu þjóðvega. Ég vænti því, að brtt. mín verði samþ. Hinsvegar mun ég taka hana aftur, ef aðrir þm. gera slíkt hið sama með brtt. sínar.