23.04.1940
Efri deild: 48. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (1940)

16. mál, vegalög

Frsm. meiri hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti! Síðan þetta mál fór úr þessari hv. deild hefir orðið sú breyt. á því í Nd., að breyt. við 12. gr. vegalaganna og ákvæði til bráðabirgða hefir hvorttveggja verið fellt niður.

Á sínum tíma mun Ed. Alþ. hafa verið ætlað það hlutverk að viðhafa meiri gætni og festu um meðferð mála en Nd. Veit ég ekki, hvort þessar kröfur eru gerðar til hennar ennþá. Þegar þetta frv. barst deildinni aftur, hafði þetta tvennt gerzt:

1) Nd. lýsti sig andvíga þeirri stefnu, sem kom fram í 2. gr. frv., að láta ríkissjóð ekki kosta nema að nokkru leyti þá vegi, sem ekki væru alþjóðarvegir, ef svo mætti segja, heldur einstökum héruðum til hagsbóta.

2) Nd. leyfir sér með þessu að stoppa um 2 ár nýlagningu 16 vega, sem verið er að leggja, þar sem fé er ætlað til sýsluvega í fjárl. og það hefir að nokkru leyti farið í þessa vegi móti framlagi frá viðkomandi sýslum, en það fé er ekki hægt að láta renna til þjóðvega skv. lögunum. Í stað þess að leyfa eðlilega þróun um framhald þessara vega með því að láta héruðin leggja á móti framlögum ríkissjóðs hefir Nd. klippt yfir þráðinn, svo að nú verða þessir vegir að bíða þar til fé er veitt til þeirra í fjárl. 1942, ef tök eru á því þá.

Samhliða þessu virðist Nd. álykta, að þær 750 þús. kr., sem ætlaðar eru til viðhalds þjóðvega í fjárl., muni endast það vel, þrátt fyrir hækkað dagkaup, að óhætt sé að bæta viðhaldi þessara nýju þjóðvega á þennan lið, enda þótt undanfarin ár hafi þurft 830 þús. kr. til 1 millj. kr. til viðhalds þeirra þjóðvega, er fyrir voru.

Nd. hefir með afgreiðslu þessa máls sýnt framúrskarandi ábyrgðarleysi. Ég álít því fyrir mitt leyti, að það sé óforsvaranlegt af Ed.samþ. frv. eins og það er nú, sérstaklega ef enn er litið á Ed. sem kjölfestu Alþingis. N. hefir ekki haft tækifæri til þess að taka sameiginlega afstöðu um frv., enda er það nýlega afgr. frá Nd. og ekki enn farið að útbýta því hér í deildinni.