23.04.1940
Efri deild: 48. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 790 í B-deild Alþingistíðinda. (1943)

16. mál, vegalög

Þorsteinn Þorsteinsson:

Það er aðeins eitt atriði, sem ég vildi minnast á vegna ræðu hv. 1. þm. N.-M. viðkomandi kostnaðinum við vegina. Ég vil beina athygli hv. þd. að því, að þetta frv., sem nú er flutt, verður ekki staðfest sem l. fyrr en nú eftir mánaðamótin. Og það er ekkert ákvæði um það, að þau gangi strax í gildi. Þá eru 12 vikur frá því að tilkynnt er, að l. séu staðfest og þangað til þau ganga í gildi. Þá verður sennilega komið fram í ágúst, þegar þau öðlast gildi, úr því að þessi tími er kominn. Og þar af leiðandi geri ég ekki ráð fyrir, að hægt verði að vinna neitt verulega fyrir þetta fé á þessu ári. Það kemur sennilega ekki til neins verulegs kostnaðar á þessum vegum á árinu 1940.