26.02.1940
Efri deild: 5. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (1986)

9. mál, brúasjóður

*Flm. (Páll Hermannsson):

Þetta frv. var flutt á síðasta Alþ. og af sömu mönnum, sem flytja það nú, og það er svo skammt liðið síðan, að ástæðulaust er að endurtaka það, sem sagt var um þetta frv., þegar það var lagt fram hér á Alþ. í það skipti, enda fylgir grg. þessu frv., og þó að hún sé ekki löng, er skýrt tekið fram, hvernig þetta mál er hugsað, og ég vona, að öllum hv. dm. sé ljóst, hver tilgangur þessa frv. er, ef að l. verður.

Það er vitanlegt, að brúargerðir eru einn merkilegasti þátturinn í þeim samgöngubótum, sem orðið hafa hér á landi á síðasta mannsaldri, og það er líka vitanlegt, að þrátt fyrir það, hve mikið hefir verið að þessu unnið, er samt mikið ógert, og satt að segja er raunalegt, að mikil kyrrstaða hefir komizt á í þessum efnum, því að slíkt þýðir í raun og veru sama sem afturför. Þeim, sem hafa fengið slíkar umbætur, hættir stundum við að gleyma, við hve mikla örðugleika þeir eiga að búa, sem vantar slíkar umbætur, en hinsvegar muna þeir þetta, sem enn eiga við slíka örðugleika að stríða.

Um brúargerðir orkar stundum tvímælis, hvar framkvæma skuli slík mannvirki, og það mun vera algengt, að þeir, sem hafa orðið að bíða, líti svo á, að það sé ekki ætíð réttlátt, að þeir séu látnir sitja hjá, en aðrir gangi fyrir.

Ég ætla ekki að tefja fyrir með langri ræðu um þetta frv., en ég get getið þess, að mér virðist, eftir því sem ég hugsa þetta mál lengur, að sá viðbótartollur, sem ætlazt er til, að lagður verði á benzín, muni í reyndinni verða svo lítil, að verðið á því hækki ekki svo neinu teljandi nemi, einkanlega verði honum alls ekki varið til brúargerða, jafnvel þó að safnist þegar saman kemur.

Það er vitað, að á þessu máli eru tvær hliðar, eins og mörgum málum. Önnur hliðin er fjárhagslegs eðlis, þar sem um nýjan toll er að ræða, en að hinu leytinu er þetta hreint samgöngumál.

Á síðasta Alþ. var þetta frv. til meðferðar hjá fjhn. og hlaut athugun þar, en mér þætti eðlilegra, að frv. yrði að þessu sinni vísað til samgmn., ef hæstv. forseti sér enga formgalla á því, til þess að það verði nú athugað af samgmn.

*) Stjarna (*) framan við nafn ræðumanns táknar, að ræðan sé prentuð eftir handriti innanþingsskrifara, óyfirlesin af ræðumanni.