08.03.1940
Efri deild: 13. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í C-deild Alþingistíðinda. (1990)

9. mál, brúasjóður

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég þarf ekki að vera margorður um þessa brtt. mína. Ég er þakklátur hv. frsm., sem tók till. minni mjög vinsamlega og kvaðst ekki mundu leggja stein í veg fyrir það, að hún næði fram að ganga.

Ég álít rétt, þar sem vegamálastjóri kveðst hafa átt hugmyndina að þessu máli, að farið sé eftir till. hans um það, hvernig fé úr brúasjóði skuli varið, og að þær brýr, sem kosta 20 þús. kr. eða meira, verði tillags aðnjótandi úr sjóðnum. Með því móti komast líka fleiri brýr undir þessi lög. En ef við lítum yfir upptalninguna á þskj. 72, sést, að nær allar þær brýr, sem hafa þennan dýrleika, 30 þús. kr., eru í Austfirðingafjórðungi. aðeins ein á Norðurlandi. Með því að fara að till. minni dreifist tillag úr brúasjóði víðar yfir landið, og má vænta þess, að það afli frv. meira fylgis. Mér finnst sjálfsagt að fara eftir till. vegamálastjóra í þessu efni, og hefi ég því borið fram þessa brtt., sem ég vona, að nái fram að ganga. Ég tel eins og sakir standa mikla nauðsyn fyrir brú á Jökulsá á Fjöllum, og þarf að byggja hana sem allra fyrst. eða strax og hægt er að kaupa efni frá útlöndum. vegurinn nýi til Austurlandsins kemur að litlum notum, ef áin er óbrúuð, en vegurinn mun komast að brúarstæðinu á næstunni.

Ég mun svo ekki orðlengja þetta frekar; ég þakka góðar undirtektir við till. mína og tel sjálfsagt, að fjvn. athugi sem fyrst, hvað unnt sé að gera í þessu máli.