08.03.1940
Efri deild: 13. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í C-deild Alþingistíðinda. (1991)

9. mál, brúasjóður

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Við Alþfl.-menn höfum ekki látið til okkar heyra í þessu máli til þessa. Ég vil taka fram, að þau fáu orð, er ég læt um það falla, tala ég frá eigin brjósti, en ekki f. h. flokksins.

Í nefnd þeirri, er um málið hefir fjallað, á Alþfl. engan fulltrúa. Nú hefir n. afgr. málið. sem sjá má af skjölum, sem fyrir liggja, og lagt til, að frv. verði samþ. í öllum aðalatriðum.

Ég álít, að mjög orki tvímælis, hvort eigi að ganga inn á þá braut, sem gert er með stofnun brúasjóðs. Brúagerðir hafa á undanförnum árum verið komnar undir ákvörðunum Alþ., og verður ekki annað séð en að Alþ. haf séð nauðsyn þessara framkvæmda og veitt fé til brúabygginga á ýmsum stöðum í landinu. Þessi krókaleið, sem hér er farin, að mynda sjóð af vissu innflutningsgjaldi, er síðan verði varið til brúagerða, er óþörf. Ég held, að treysta mætti Alþ. til þess, að það sæi nauðsyn þessa máls á hverjum tíma og veitti fé til brúabygginga eins og áður. Auk þess tel ég mikið vafamál, hvort rétt sé að auka benzínskattinn. Lítrinn af benzíni kostar nú 49 aura, og það verð getur ef til vill ekki staðið nema stuttan tíma, þar sem vænta má. að flutningsgjald af benzíni fari enn hækkandi. Það má ef til vill segja, að 1 eyrir sé ekki mikil upphæð, en hvert hár gerir skugga, og ég býst við því, að þeir, sem halda uppi bifreiðaflutningum, telji, að mælirinn sé þegar fullur og að erfitt sé að halda uppi slíkum samgöngum nema hækka flutningsgjöldin.

Þess má og geta, að þegar benzínskatturinn var lagður á upprunalega, var ætlunin að verja honum til malbikunar á vegum, þ.e. að gera vegina svo trygga, að ekki þyrfti árlega að verja jafnmiklu fé til viðhalds og áður. Það var einnig haft í huga, að skapa atvinnu við þessar vegagerðir fyrir fjölda atvinnulausra manna.

Til brúargerða þarf óumflýjanlega allmikið af erlendu efni. Hv. frsm. benti á, að töluvert þyrfti af járni, en sú vara er lítt fáanleg á þessum tímum, og ekki nema fyrir okurverð. Sama máli gegnir um sement, sem nota þarf í stöpla o. fl. Hvorttveggja þýðir aukin gjaldeyrisútgjöld. — Þegar þetta er athugað, er álitamál, hvort rétt sé að hraða þessu máli.

Ég er þess fullviss, að Alþ. gerir á hvaða tíma það, sem unnt er. til þess að hraða smiði brúa, en á meðan stríðið stendur, má búast við, að miklir erfiðleikar reynist á slíkum framkvæmdum. Ég álít því, að Alþ. eigi að veita fé til brúagerða eins og hingað til og ákveða, hvernig þeim framkvæmdum skuli hagað, en að það eigi ekki að fara að leggja skatt á þessa vöru, sem þegar er mjög dýr og reynzt getur erfitt að fá.

Ég læt svo útrætt um þetta frá minni hálfu, ég mun greiða frv. atkv. til 3. umr. og sjá, hvernig þá talast til um samþykkt þess.