08.03.1940
Efri deild: 13. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í C-deild Alþingistíðinda. (1992)

9. mál, brúasjóður

*Magnús Jónsson:

Ég vil aðeins fara fáum orðum um þetta mál, þótt það hefði átt betur við að gera það við 1. umr. — Ég vil aðeins segja, að ég get ekki fylgt þessu frv. Með því að fara inn á þessa braut, að leggja á ákveðinn skatt til ákveðinna verka, er raunverulega verið að draga úr fjárráðstöfunum Alþingis. Ég er ekki heldur í minnsta vafa um það, að verði þessi leið farin nú, muni verða haldið áfram, og erfiðara mun reynast að kippa í liðinn aftur. Síðan þetta frv. kom fram í fyrra, hefir þegar komið fram annað frv. í svipuðu formi, um hækkun innflutningsgjalds af víni og tóbaki. Það er sagt, að sú hækkun sé ekki stórvægileg, og er þó gert ráð fyrir að hún nemi samtals um 100 þús. kr., sem síðan á að verja til íþróttamála. Á sama hátt mætti finna einhverja tekjuöflunarleið og verja því, sem inn fengist, til jarðræktar; það er nóg til af þörfum verkefnum, sem framkvæma þarf, og ég efa ekki, að hugkvæmni þm. yrði mikil í þessu efni, ef einu sinni væri byrjað á þessu. Ég segi eins og hv. 2. landsk., að ég er feiminn við að hækka benzínskattinn eins og nú standa sakir, en hitt er þó verra, ef Alþ. gengur inn á þessa braut. — Að vísu má segja, að það hafi verið gert. þegar benzínskatturinn var fyrst lagður á, en þar var þó fast orsakasamband á millí, því að hann var lagður á með það fyrir augum, að gera bifreiðaumferð greiðari en nú er og jafnframt ódýrari í reynd, því að það mun mega staðhæfa það, að ef allir vegir væru malbikaðir hér á landi, myndi ekki dýrara að aka um þá með dýra benzíninu en það væri að aka eftir gömlu vegunum með ódýra benzíninu.

Það hafa komið fram 2 brtt. við þetta frv. Ég þori ekki að segja um það, hvort þær eru til bóta eða ekki, en þær slá því báðar föstu, að enda þótt þessi brúasjóður yrði stofnaður, eigi ekki að létta fjárveitingu til brúagerða af fjárl.

Ég er hlynntur brúagerðum og skal í lengstu lög fylgja því, að fé sé veitt í fjárl. svo sem frekast er unnt á hverjum tíma, en ég mun greiða atkv. bæði gegn þessu frv. og hinu frv., sem ég minntist á áðan, vegna þess að ég er mótfallinn þeirri aðferð, sem þar á að beita.