08.03.1940
Efri deild: 13. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í C-deild Alþingistíðinda. (1997)

9. mál, brúasjóður

*Magnús Jónsson:

Þó að því væri að vísu ekki beint til mín, sem hv. 1. þm. N.-M. sagði um vörugjaldið í Vestmannaeyjum og gjald af farmiðum milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, get ég minnt hann á, að það hafði víst engum dottið í hug, að bæjargjöld skyldu öll renna í ríkissjóð og ganga svo þaðan til bæjarþarfa. Samanburður hans á þessu og benzínskatti til brúasjóðs er því út í loftið. Hinsvegar er vörugjaldið í Vestmannaeyjum ágætt dæmi, sem styður málstað okkar, andstöðumanna þessa frv. Það gjald er ekki lagt á í tilteknu, sérstöku augnamiði, heldur til bæjarþarfa almennt, eins og við teljum, að benzínskattur eigi að ganga til almennra ríkisþarfa. Eins er um tekjur Hafnarfjarðar af mannflutningunum.

Hv. þm. telur ómögulegt að byggja þessar brýr án slíkra óyndisúrræða. En er það ekki eins og alltaf hefir verið? Hvaða hindranir hafa nú skapazt, sem ekki voru fyrir hendi fyrr, og þó eru þegar byggðar margfalt fleiri brýr en flm. þessa frv. telja, að nú þurfi að fara að brúa! Það er eins og þeim finnist þjóðinni algerlega ofvaxið að standast álíka framkvæmdir og hún hefir staðizt á síðustu áratugum. Ég vil ekki láta það á mér festa, þótt sagt sé, að ég sé á móti þessum stórbrúm, af því að ég er mótfallinn fjáröflunaraðferðinni. Hún er ekki réttlát, eins og hv. þm. segir, því að mikill hluti benzínskattsins leggst á bíla, sem koma nær aldrei út fyrir takmörk Reykjavikurbæjar. Brúargerðunum er ég raunar mjög fylgjandi. En mér finnst mega fara þar að eins og að undanförnu, þegar ríkið hefir veitt fé til þeirra framkvæmda, eða þeir, sem mestan áhuga eða hagnað hafa af brúagerðinni, tekið að sér að útvega lán til verksins. Minna má t. d. á Markarfljótsbrúna. Þetta er á engan hátt óeðlileg aðferð. Ég vildi líka benda á aðra einfalda leið til að mynda „brúasjóð“. Ríkið gæti t.d. lagt einar 50 þús. kr. til hliðar á ári í því skyni. Það eru náttúrlega ýmsir möguleikar til og flestir skárri en þetta frv., sem stefnir inn á hættulega braut.

Þegar fyrst var settur hér bifreiðaskattur, var stofnaður sérstakur sjóður til malbikunar vega. En þegar til framkvæmda kom, þótti það óheppilegt, og skatturinn rann beint í ríkissjóð, en þaðan var svo veitt fé til malbikunar, eftir ástæðum í hvert sinn. Með benzínfénu hefir þessi aðferð þó að nokkru leyti verið tekin upp aftur. Nefna má hliðstæð dæmi eins og það, er áfengissektir áttu að renna í menningarsjóð, þangað til auðsætt þótti, að betra væri, að þær rynnu beint í ríkissjóð, sem síðan greiddi menningarsjóði tilteknar upphæðir á ári. Skemmtanaskattur átti að ganga til þjóðleikhúss, en úthaldið varð þar minna en til stóð, og rennur hann í ríkissjóð. Það er margreynd, en úrelt fjármálastefna, sem þetta frv. byggist á.

Ef það á endilega að koma þessu máli fram, vildi ég spyrja, hvort ekki mundi nægja að sinni, að þingið ákvæði að brúa Jökulsá á Fjöllum. Þessi hv. þm., sem var að tala af mestum hita um, að við sæjum ekkert út fyrir hagsmunasvið kaupstaðanna, — hann var nærri dottinn, svo hneykslaður var hann, — skyldi hann ekki vera ákafastur í málinu vegna þess, að brúin á Jökulsá, sem fyrst er ráðgerð, snertir kjördæmi hans og þeirra flm. allra?

Hv. 1. þm. N.-M. hélt því fram, að það væri alveg hliðstætt samband milli þarfa bifreiðaumferðarinnar og malbikunar eins og milli þarfa bifreiðaumferðar og brúargerða. Ég vil náttúrlega ekki deila um þetta svona almennt; þannig rök mætti færa fyrir því t. d. að gera þráðbeinan veg héðan til Akureyrar í sparnaðarskyni fyrir þá, sem þangað aka. Hitt er áreiðanlega meiri fengur fyrir bíleigendur, að leggja betra slitlag á allra fjölförnustu vegina.

Ég vil fullyrða það, að benzínskatturinn er langtum hærri hér en í nágrannalöndum og kannske hærri en í nokkru öðru landi í veröldinni. Þar nægir alls ekki að líta á það, hve hár hann er á hverjum lítra. heldur hve mikill hann verður að meðaltali á t. d. 100 km. akstri. Þá hljóta vegirnir eða vegleysurnar hér að hækka hinn raunverulega skatt óskaplega, samanborið við lönd með góða vegi, slétta eins og fjalagólf. Auk þess sjá þau lönd almenningi fyrir enn betri og ódýrari samgöngum með járnbrautum og styrkja þær samgöngur viða með stórfé. Hér er ekkert slíkt til samanburðar.

Ég þykist skilja, að Jökulsárbrúin og stytting leiðarinnar til Austurlands sé höfuðatriði fyrir flm. þessa máls, og þeir telja, að bílferðir þangað séu of dýrar eins og er. Ég geri ráð fyrir. að þingmenn séu menn í hagsýnna lagi. Hve margir af þm. Austfirðinga koma nú ríðandi til Alþingis? Skyldi það ekki borga sig betur, meðan bílum er ófært beint yfir Jökulsá? Eða þykir þeim, þrátt fyrir allt, betra en ekki að nota það bílsamband, sem Austurland hefir þegar fengið við aðra landshluta?

Mér þótti rétt, þó að við 2. umr. sé, að taka málið almennum tökum, gera grein fyrir afstöðu minni til þess í heild, og þakka hæstv. forseta, að hann átelur það ekki. Ég get ekki fallizt á frv., en ég skii ákaflega vel þá menn, sem bera fyrir brjósti samgöngur fjarlægra héraða. Ég get ekki fallizt á aðferð þessa frv. til fjáröflunar, því að hún leiðir í þær ógöngur, sem við höfum áður nóg af; afleiðingarnar yrðu eins óþarfar og tilgangurinn sjálfur er þarfur.