11.03.1940
Efri deild: 14. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í C-deild Alþingistíðinda. (1999)

9. mál, brúasjóður

*Páll Hermannsson:

Ég hafði kvatt mér hljóðs á föstudaginn, þegar þetta mál var hér til umr. Var þá búið að ræða málið svo mikið, að ástæða hefði átt að vera til, að það væri fullrætt. En mér þykir rétt að gera örfáar aths. við ýmislegt, sem þá bar á góma um málið.

Fyrst og fremst vil ég þakka hv. samgmn. fyrir að hafa vísað þessu máli áfram og fyrir að vilja leggja til, að frv. yrði samþ., því að ég hygg, að hér sé um gott mál að ræða og vel farið, ef það kemst tafarlaust í gegnum þingið.

Það leyndi sér ekki, að sumir hv. þdm. lögðu heldur á móti málinu, eða a. m. k. fannst þeim þeir ekki vera við því búnir að samþ. það. Báru þeir fram ýmsar ástæður fyrir því. virtist mér þó, að þessir hv. þm. vildu stuðla að því, að byggðar yrðu brýr yfir vötnin svo fljótt og ört sem getan leyfði það. Hv. 2. landsk. virtist finna það helzt að þessu frv., að það legði nýjan toll, nýjar byrðar á þá, sem nota samgönguleiðirnar og samgöngutækin, bifreiðarnar. Þetta er rétt, þetta er örlítill skattur á þá menn, en ég vil halda því fram, að einstaklingarnir verði ekkert varir við hann; hann er svo lítill. Þó safnast, þegar saman kemur. Hvað skyldi það t. d. hafa orðið hár benzínskattur, ef það hefði verið reiknað sem benzínskattur, sem lagður var á samgöngurnar á milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar hérna um árið? Það hefði ekki orðið 1%, heldur 100%, þegar fargjöldin voru hækkuð um 50%. Ég held, að hv. 2. þm. Reykv., sem lýsti því annars yfir, að hann væri málinu fylgjandi, sé alveg óhætt að ganga út frá því, að enginn verði ónotalega fyrir barðinu á þessum skatti.

Hv. 1. þm. Reykv. setti það út á frv., að með því væri verið að binda tekjur ríkissjóðs í ákveðnu augnamiði. Þetta er rétt, en það er ekkert einsdæmi. Ýmsar tekjur ríkissjóðs eru fastbundnar í fjárframlög í þarfir landsmanna og gagnleg málefni, og fer ég ekki að telja það upp, því hann er því jafnkunnugur og ég. Sami hv. þm. benti líka á, að það skapaðist ekkert nýtt fjármagn við þetta. Það er rétt, landsmenn aura þarna saman, eins og þeir gera í fjölmörgum tilfellum, t. d. eins og með happdrættinu, sem rekið er til að byggja fyrir húsnæði handa háskólanum. Ég held, að það sé misskilningur, að þessi nýi tollur þyrfti að koma niður á bílstjórunum. Ef það yrði svo í framkvæmdinni, þá væri það rangt, því þessi tollur á að koma niður á þeim, sem nota vegina og samgöngutækin, hann á að leggjast á umferðina, og hann kemur hvergi réttlátar niður en einmitt þar.

Menn segja, að benzín sé eins dýrt eða dýrara hér en í öðrum löndum. Það má vel vera, en það er vist, að umferðin um landið, bæði fólks- og vöruflutningar, sem fara fram með aðstoð benzínsins, eru ódýrari en nokkrir aðrir flutningar á landi. Það er enga flutninga hægt að fá líkt því eins ódýra, ef um nokkrar vegalengdir er að ræða, og með bílunum. Og það er spá mín, þótt ég sé enginn spámaður, að með tímanum muni fara svo, að kostnaðurinn við viðhald á vegakerfinu muni færast yfir á umferðina, enda fer bezt á því.

Þá hafði hv. þm. Vestm. það einkanlega út á frv. að setja, að með því væri farið að hrófla við nýjustu tollal. og þar með sótt inn á sömu braut og áður var, þegar tollafyrirmælin var að finna hingað og þangað, en ekki í ákveðnum lagabálki. Ég lyst nú við, að einhverntíma verðiað breyta tollskránni, en ég tel, að í þessu tilfelli sé tollskránni, strangt tekið, alls ekki breytt. Tollskráin sjálf telur toll af benzíni aðeins 8,96 aura, en raunverulega er ákvæðin um benzíntoll að finna í 27. gr. tollskrárinnar, þar sem getið er um, að enn skuli gilda ákvæðið um aukabenzíntoll, sem sett var í l. árið 1932 og breytt árið 1933. Þessum aukabenzíntolli er einungis varið til vegagerða. því vill þannig til, að þótt frv. verði samþ., þá breytir það engu í sjálfri tollskránni.

Hv. þm. Vestm. gat um, að til væru byggðarlög á landinu, sem hefðu haft kostnað af þessum benzínskatti, án þess að fá nokkuð í staðinn. Þótt svo væri, finnst mér, að slíkar undantekningar eigi ekki að standa í vegi fyrir almennu reglunni, ef hún er talin heppileg, og það verð ég að telja, að sú regla sé, að láta umferðina bera uppi vegagerðina að allverulegu leyti um þetta strjálbýla land, sem annars mun verða erfitt að láta fá viðunandi vegakerfi.

Ég vildi mega vona, að þrátt fyrir það, að ýmsir hv. þm. þykjast sjá ýmsa agnúa á þessu frv., þá fái það samþykki hér og afgreiðslu frá þinginu. Þótt ég viti, að það gerir ekki stórt strik í reikninginn að byrja með þessu frv., þá vænti ég, að þegar fram í sækir, verði það að gagni. A.m.k. styrkir það nú þær veiku vonir, sem þeir menn hafa, er vantar þessar samgöngubætur, brýrnar, um að innan skamms fáist úr þeirri vöntun bætt. En reynsla undanfarinna ára og útlitið framundan er á þá leið, að slíkar vonir munu verða daufar hjá mönnum, einkum um það, að brúuð verði stórvötn.