14.03.1940
Efri deild: 17. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í C-deild Alþingistíðinda. (2005)

9. mál, brúasjóður

*Magnús Jónsson:

Eins og ég gat um við fyrri umr. málsins, þá get ég ekki fellt mig við þann grundvöll, sem þetta frv. er byggt á, sem sé þann, að leggja sérstakan skatt á í sérstöku skyni, svo að í raun og veru sé verið að koma upp svo og svo mörgum smáum ríkissjóðum. Ég held, að það sé eðlilegast, að allar ríkistekjurnar séu látnar renna í einn ríkissjóð og ráðstafað þaðan á fjárl. hvers þings.

Ég ber fram brtt. við þetta frv., ekki út frá því, að ég er ekki samþykkur þessari aðferð, heldur út frá því, að frv. hefir náð samþykki meiri hl. hv. þdm. Frv. mun því halda eitthvað áfram, svo ég hefi aðeins í brtt. mínum á þskj. 121 viljað stinga upp á nokkuð annari notkun fjárins, ef það er á annað borð meiningin að fara inn á þessa braut, að afla þessara sérstöku tekna og ráðstafa þeim á sérstakan hátt. Brtt. mínar, þó þær séu þrjár, ganga út á eitt og hið sama, að skipta því fé, sem aflast með auknum benzínskatti, þannig, að helmingurinn fari til þess, sem hið upprunalega frv. ætlast til, að aura saman í stórar brýr, en hinum helmingnum sé varið til malbikunar á götum í kaupstöðum landsins. Ég tel eðlilegt, að fénu sé þannig varið, þar sem það er vitað, að meginþunginn af þessu, hvort sem hann telst mikill eða lítill, leggst á bifreiðar einmitt í kaupstöðunum, enda er þar líka ákaflega mikil þörf á umbótum í þessu efni. Það má segja, að það sé mjög áríðandi að brúa stórvötn, en það má alveg eins segja um hitt verkefnið. Það er ákaflega dýrt og erfitt fyrir bæina að gera göturnar þannig úr garði, að viðunandi sé, þar sem það hefir sýnt sig, að þar, sem um verulega umferð er að ræða; þá er ekkert, sem dugir annað en malbikun eða steinsteypa. Ég held, að menn hafi yfirleitt hallazt að því að gera göturnar þannig úr garði, að malbika þær. Það hafa verið reyndar ýmsar aðferðir hér í Rvík, en þær hafa allar reynzt ófullnægjandi, nema malbikun eða steinsteypa.

Hér er um svo fjárfrekar umbætur að ræða, en hinsvegar mjög nauðsynlegar, að það má segja, að þær séu eins erfiðar fyrir bæina eins og það er fyrir ríkissjóðinn að koma upp stórbrúm. Mér finnst því, ef menn á annað borð vilja fallast á að leggja þennan sérstaka skatt á benzín, að öll sanngirni mæli með því, að þessu gjaldi sé skipt milli þessara tveggja verkefna.

Ég skal svo ekki tefja umr. Þetta mál er mjög einfalt, og eðlilegt, að úr þessu sé skorið með atkvgr., hvort menn vilja fallast á þessa notkun fjárins eða halda sig við frv. Mér finnst, að öll sanngirni mæli með brtt. mínum.