14.03.1940
Efri deild: 17. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í C-deild Alþingistíðinda. (2009)

9. mál, brúasjóður

Brynjólfur Bjarnason:

Ég ætla að gera aths. við ræðu hv. 1. þm. N.-M., þar sem hann segir, að ef hægt væri að benda sér á aðrar leiðir til þess að afla fjár til þessara framkvæmda, væri hann fús til þess að taka það til athugunar. Ég get strax bent á ótal leiðir til þess að afla þessa fjár, t. d. laun konungs, sem eru álíka há eins og til þessa þarf, svo eru embætti með 6 þús. króna launum, sem álíka vel mættu missa sig. Eitt slíkt embætti er eftirlitsmannsembættið með bæjar- og sveitarfélögum, sem verið var að samþ. í d. rétt núna. En ég geri ráð fyrir því, að þegar til þess kemur, hvernig ætti að afla fjár til þessara framkvæmda, gætum við ekki orðið sammála, en það ætti ekki að standa í vegi fyrir því, að við getum orðið sammála um að leggja fé til brúagerða, þó eftir sé að athuga, hvernig þess skuli aflað. Ef hann álítur rétt að afla þessa fjár með því að leggja viðbótarskatt á benzín, þá á hann að koma með sérstaka till. um það. Ef honum er þetta áhugamál, á hann að fallast á, að þessi óskyldu mál verði afgr. hvort í sínu lagi, eins og til er ætlazt með brtt. minni.