28.03.1940
Neðri deild: 24. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í C-deild Alþingistíðinda. (2018)

63. mál, jöfnunarsjóður aflahluta

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson):

Sjútvn. hefir haft þetta frv. til athugunar og ekki getað orðið sammála um afgreiðslu þess. Vil ég gera nokkra grein fyrir áliti meiri hl. n.

Eins og kunnugt er, þá hafa sjómenn víða í verstöðvum hér við land, sem ráðnir eru gegn hlut af afla, krafizt þess að fá svokallaða lágmarkskaupstryggingu, og hafa útgerðarmenn á ýmsum stöðum orðið að fallast á að tryggja þeim lágmarkstekjur. Nú er það hinsvegar svo, að þegar illa gengur útgerðin og hluturinn verður rýr, þá er ákaflega erfitt fyrir útgerðarmenn að taka á sig þessa kvöð. Því er það, að um það hefir verið rætt, og frv. flutt um það, að stofna svokallaðan jöfnunarsjóð aflahluta. Sjútvn. er á einu máli um það, að þess sé þörf að koma á einhverskonar hlutatryggingum, en hinsvegar taldi meiri hl. n., að þar sem hér væri um nýmæli að ræða og að mörgu leyti vandasamt viðfangs, þá væri æskilegt, að þetta mál fengi betri undirbúning en það hefir þegar fengið. Hv. þm. Ak. og hv. 6. þm. Reykv. telja þó fært að samþ. frv. eins og það liggur fyrir. Meiri hl. n. leggur til, að málið verði afgr. með rökst. dagskrá, sem prentuð er á þskj. 189 með nál.

Ég skal geta þess, að þetta mál kom til meðferðar á nýafstöðnu fiskiþingi, og meiri hl. þeirrar n., sem hafði málið þar til athugunar, áleit það nauðsynlegt, að málið fengi betri athugun.

Ég vil því vænta þess, að d. geti fallizt á að samþ. rökst. dagskrána á þskj. 189, og vænta flm. hennar þess, að stj. taki málið til athugunar, þannig að það geti komið fyrir næsta alþ., svo að þá verði hægt að setja löggjöf um þetta efni.