28.03.1940
Neðri deild: 24. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í C-deild Alþingistíðinda. (2019)

63. mál, jöfnunarsjóður aflahluta

*Sigurður Kristjánsson:

Hv. d. er þetta mál kunnugt. Það hefir legið hér fyrir til athugunar og umr. áður, og er liðið á annað ár síðan það kom fyrst fram í þessari d., sem þá afgr. það í mjög svipuðu formi og það er nú borið fram. Ég vil því vænta þess, að d. geti afgr. málið á annan hátt en hv. meiri hl. n. leggur til, eða á þann hátt, að frv. verði samþ. óbreytt eða með breyt.

Ég hefi áður gert grein fyrir nauðsyn þessa máls og þarf ekki að endurtaka það. Þetta frv. er til orðið vegna þeirra vandræða, sem skapazt hafa vegna þess, að þeir, sem hafa fengið kaup sitt greitt með hlut af afla, hafa á undanförnum árum haft ákaflega rýra afkomu og hafa því ekki talið sig geta bundið sig yfir heilar vertíðir, nema fá einhverja kauptryggingu til þess að geta dregið fram lífið. Þessir menn hafa ekki á aðrar dyr að knýja en Alþ., því eins og kunnugt er, hefir bæði náttúran og löggjafinn búið þannig að sjávarútveginum, að þeir, sem teljast eiga útgerðina, eru flestir orðnir öreigar og eru þess ekki megnugir að tryggja hásetum sæmilega afkomu, ef aflabrestur verður. Það hefir þess vegna komið í ljós, að það verður að gripa til annara ráða en að hefja verkföll og knýja útgerðarmenn til að gefa skuldbindingar, sem þeir geta ekki staðið við. Ég held, að þeir, sem eitthvað þekkja til útgerðarmála, séu yfirleitt sammála um, að einhverjar ráðstafanir þurfi að gera í þessu efni í líkingu við þær, sem stungið er upp á með þessu frv. Frv. hefir fengið umsagnir fjölmargra manna, og hafa þeir svo að segja allir verið því fylgjandi, bæði sjómenn og útgerðarmenn. Fiskifélagsdeildir og nú síðast fiskiþingið hafa lýst eindregnu fylgi sínu og skorað á Alþingi að samþ. frv. óbreytt. Það er rétt, sem hv. frsm. gat um, að meiri hl. sjútvn. fiskiþingsins lagði hið sama til og meiri hl. hv. sjútvn. hér í deildinni gerir nú. En sá meiri hl. var þannig til orðinn, að maður, sem var algerlega móti málinu, án þess þó að færa nokkur rök fyrir þeirri afstöðu sinni, varð fyrir þrábeiðni annara með þeim, sem vildu setja nefnd í málið. Í þeim meiri hl. var einnig þm., sem á sæti hér í deildinni og hefir greitt hér atkv. með málinu. Aðalfundur Fiskifélagsins lét í ljós eindreginn vilja um, að frv. yrði að lögum á þessu þingi.

Við, sem sæti eigum í sjútvn., höfum skrifað undir sameiginlegt nál. um þetta mál. Allir nefndarmenn hafa lýst yfir því, bæði nú og á síðasta þingi, að þeir teldu mikla nauðsyn á slíkum lögum, aðeins skildi á um það, hvort frv. skyldi afgr. á þessu þingi eða nefnd sett til að athuga það, áður en það yrði lagt fyrir næsta þing. Ég tel að vísu mikla þörf á lögum þessum sem allra fyrst. Það væri t. d. mjög óheppilegt, ef lög um þetta efni gengju í gildi, þegar aflahlutir væru rýrir, svo að strax þyrfti að taka til sjóða. Hitt væri ákaflega æskilegt. að byrja á uppgangsári fyrir útveginn, svo að sjóðunum gæti fénazt dálítið í upphafi. Það eru nokkrar vonir um, að svo verði á næsta ári. Þess vegna vildi ég, að frv. yrði afgr. nú, þótt ég viti, að það er líka framtíðarmál, sem þolir að bíða, sjálfs sín vegna. Yrði málið samþ. hér nú, væri það því aðeins greiði við það, ef hæstv. ríkisstj., og þá sérstaklega hæstv. atvmrh., vildi beita sér fyrir því, að það fengi afgreiðslu úr hv. Ed. á þessu þingi. Að öðrum kosti er betra fyrir málið, að rökst. dagskráin verði samþ. við, sem barizt höfum fyrir málefnum sjávarútvegsins á undanförnum árum, erum því vanir, að bíða eins lengi og þarf, þangað til góður málstaður hefir sigrað.

Ég kýs heldur, að þetta mál fái góða afgreiðslu, ef ekki nú, þá á næsta þingi, en eiga á hættu, að það dagi uppi í Ed.

En ef það á ekki fyrir frv. að liggja að ganga fram nú á þinginu, verð ég að segja, að þar er um að kenna þeirri gömlu tregðu, sem við könnumst við í öllum sjávarútvegsmálum, og ég vil bæta við, — ef hæstv. atvmrh. vildi hlusta á þau orð mín —, óskeleggri framgöngu hans í þessum málum.