04.03.1940
Neðri deild: 9. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í C-deild Alþingistíðinda. (2022)

35. mál, rafveitulánasjóður

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Þetta frv., sem hér er flutt á þskj. 42 af mér og hv. þm. Árn. og Rang. er að mestu leyti shlj. frv., sem ég flutti á síðasta þingi, en þó hafa verið gerðar á því tvær breyt. 2. tölul. 2. gr. kveður svo á, að þær rafveitur, sem njóta ríkisábyrgðar eða ríkisláns, skuli greiða árlegt gjald í þann væntanlega rafveitulánasjóð, og er hér svo ráð fyrir gert, að það gjald skuli vera jafnhátt alla þá tíð, sem ábyrgðin eða lánið stendur, en í frv., sem flutt var á síðasta þingi, var ákveðið, að þetta gjald breyttist árlega, meðan nokkuð væri ógreitt af lánsupphæðinni.

Hin breyt. er við 7. gr. Þar er nú ákveðið, að vextir af lánum úr sjóðnum skuli vera 3%, en í frv. var svo ráð fyrir gert, að þeir yrðu jafnháir og vextir af lánum úr ræktunarsjóði á hverjum tíma.

Flestir kaupstaðir landsins, þeir stærstu, þar sem mestur mannfjöldinn er saman kominn, hafa nú fengið raforku með aðstoð ríkisins. Má gera ráð fyrir, að hin strjálbýlu héruð hafi að mörgu leyti verri ástæður til að nota sér rafvirkjunarmöguleika, þar sem framkvæmdir allar hljóta að verða þar miklu dýrari. Það sýnist því rétt að reyna að bæta aðstöðu þeirra að þessu leyti, með því að gefa þeim kost á ódýrari lánum.

Það hafa orðið miklar framkvæmdir í raforkumálum á undanförnum árum, en þetta á nær eingöngu við um kaupstaðina, þar sem bezt skilyrði hafa verið til framkvæmdanna. Víða um land eru mikil óleyst verkefni á þessu sviði, og fyrir síðasta þingi lá ósk um aðstoð ríkissjóðs til þess að dreifa raforkunni út um byggðir landsins, t. d. frá Sogsstöðinni, og raunar víðar á landinu. Á mörgum stöðum landsins eru skilyrði mjög góð frá náttúrunnar hendi til að byggja rafstöðvar, og má búast við, að á næstu árum komi fram margar óskir í þessu efni, en við flm. gerum þó ekki ráð fyrir, að hægt verði á næstunni að fara sömu leiðir og að undanförnu, að koma upp slíkum stöðvum fyrir erlent lánsfé eingöngu, og því teljum við, að stefna beri að því að afla fjár á einhvern hátt innanlands. Okkur er að vísu ljóst, að ekki muni þurfa að gera ráð fyrir miklum framkvæmdum á þessu sviði meðan styrjöldin stendur, en hún tekur vonandi enda, og er þá nauðsynlegt að halda þegar áfram þessari starfsemi.

Í frv. okkar er gert ráð fyrir, að stofnaður verði sjóður, sem á að veita lán til slíkra framkvæmda. Er gert ráð fyrir því, að ríkissjóður leggi sjóði þessum til fé, en ekkert er þó ákveðið um upphæðina í frv., en tekið fram, að það skuli fara eftir því, sem ákveðið er á fjárl. ár hvert. Væntum við þess, að Alþingi sjái sér fært sem allra fyrst að taka á fjárl. nokkurt fé í þessum tilgangi. Í öðru lagi er gert ráð fyrir árlegu framlagi frá rafveitum þeim, sem njóta ríkislána eða ríkisábyrgðar. Við teljum sjálfsagt að fara þessa leið, og jafnframt viljum við benda á það, að þótt ekki sé hægt að hefja framkvæmdir nú þegar eða halda áfram framkvæmdum, sem hafnar hafa verið, þá teljum við sjálfsagt að stofna sjóðinn einmitt nú. Við teljum, að mjög sé sanngjarnt, að þessar rafveitur, sem hafa að undanförnu notið aðstoðar ríkissjóðs, taki þegar að greiða fé í sjóðinn, því að þeir, sem hlotið hafa raforkuna áður en stríðið hófst, njóta nú þess hagnaðar að þurfa ekki að greiða verðhækkun þá, sem orðið hefir á erlendu ljósmeti og eldsneyti, að því leyti sem þeir nota rafmagnið þess í stað. Teljum við sanngjarnt, að lítið brot af þessum hagnaði verði látið ganga í sjóð til þess að greiða fyrir því, að aðrir landsmenn geti líka fengið rafmagnið til sín.

Ég sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um þetta mál. Það var nokkuð rætt hér á síðasta þingi, þótt það fengi ekki þá fulla afgreiðslu, og ég geri ráð fyrir, að hv. dm. séu þær umr. í fersku minni. Vænti ég þess, að málinu verði vel tekið og það nái fram að ganga á þessu þingi. Ég get tekið það fram, að Framsfl. er allur málinu fylgjandi. En ég þykist hafa ástæðu til að ætla, að það muni einnig fá fylgi annara flokka. Á nýafstöðnum landsfundi Sjálfstfl. voru raforkumálin tekin til meðferðar og var um þau gerð samþykkt, sem birt var í Morgunblaðinu og hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Landsfundur sjálfstæðismanna skorar á þm. flokksins og fulltrúa hans í ríkisstj. að beita sér fyrir því, að rannsakaðar séu gaumgæfilega leiðir til þess að greiða fyrir raforkumálum sveitanna og stuðla að framkvæmd þeirra, þegar möguleikar til þess verða fyrir hendi.“

Hér virðist mér koma fram vilji Sjálfstfl. til að greiða fyrir þessum málum. Og þar sem fyrir hendi eru rannsóknir og áætlanir, sem gerðar hafa verið, um leiðslur frá Sogsstöðinni t. d., og hægt er að grípa til strax og ástæður leyfa, vænti ég þess, að mönnum sé ljós þörfin á því að fara þegar að hugsa fyrir fjársöfnun í þessu skyni.

Að lokum legg ég til, að málinu verði vísað til hv. fjhn. og 2. umr., og vænti þess, að það fái skjóta og góða afgreiðslu í n.