04.03.1940
Neðri deild: 9. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í C-deild Alþingistíðinda. (2023)

35. mál, rafveitulánasjóður

*Finnur Jónsson:

Af því að þetta mál er gamall kunningi frá síðasta þingi, þar sem ég og aðrir urðu til að andmæla því, sé ég ekki ástæðu til að endurtaka það, sem ég sagði þá, en vil aðeins láta í ljós, að ég tel málið ekki þannig fram borið, að það muni fela í sér réttláta jöfnun milli landsmanna um raforkuveitur.

Hv. flm. taldi réttmætt að leggja skatt á þá, sem fengið hefðu rafmagn með ábyrgð ríkissjóðs, því að ljósmeti hefði hækkað í verði hjá hinum. Nú ber að athuga, að aðstaða rafmagnsveitnanna er mjög misjöfn, svo að verð á straumi frá þeim er mjög ólíkt eftir þessari aðstöðu þeirra. Auk þess ber þess að gæta, að flestar rafmagnsveitur, sem fengið hafa ríkisábyrgð, hafa reiknað með því, að þær myndu greiða skuldir sínar eftir því gengi, sem var á krónunni, þegar lánin voru tekin, en með verðlækkun krónunnar hefir aðstaða þeirra versnað stórum fyrir aðgerðir þess opinbera. Ef ofan á gengisbreytinguna ætti að leggja nýjan skatt, án tillits til þess, hve dýr rafmagnsstraumur þeirra er, þá væri þar framið mikið óréttlæti, auk þess, sem í frv. er gert ráð fyrir, að þetta gjald sé tekið af upphaflegri ábyrgðarupphæð eða láni, en ekki þeirri upphæð, sem ríkið ber ábyrgð á í hvert sinn. Það er algengt, að bankar taki ákveðið gjald af ábyrgð, sem þeir takast á hendur fyrir einstaka menn eða stofnanir, og þykir sumum það gjald nokkuð hátt, en hvað væri þá, ef ríkissjóður færi að taka ábyrgðargjald af skuldum, ekki eins og þær eru nú, heldur eins og þær kunna einhverntíma að hafa verið? Auk þess eru ábyrgðir ríkissjóðs misjafnlega háar eftir því, hver rafmagnsveitan er; sumar hafa fengið ábyrgð fyrir öllum stofnkostnaðinum, en aðrar aðeins fyrir þrem fjórðu hlutum, svo að þær, sem ekki hafa fengið ábyrgð fyrir öllum kostnaðinum, hafa orðið verr úti en hinar um lántökur. Fyrir þessum mun er ekki ráð gert í frv., heldur er gert ráð fyrir því, að ríkið taki jafnhátt gjald af þeim rafmagnsveitum, sem sætt hafa óhagstæðari kjörum í þessu efni. Ég þykist vita, að hv. flm. muni færa fram þá röksemd, að menn hafi fyrir ábyrgðina fengið hagkvæmari lán en ella myndi, og því beri að taka nokkurt gjald fyrir hana. en þess ber að gæta, að ríkisábyrgð er einnig veitt til ýmissa annara fyrirtækja, svo sem hafnargerða. Ef ríkissjóður ætti að fara að taka slíkt gjald, væri ekki samræmi í því að láta það einungis ná til rafmagnsveitnanna, en ég geri ráð fyrir, að allmikil andstaða yrði gegn því, ef fara ætti að taka ábyrgðargjöld í öllum slíkum tilfellum, því að hér kæmi þá til greina aukaskattur, sem menn gerðu ekki ráð fyrir, er þeir lögðu í fyrirtækin. Í mörgum tilfellum myndi þetta ekki heldur verða annað en nafnið eitt, því að hætt er við, að gjaldið innheimtist ekki af öllum lánum, er til greina kæmu. Ég gæti samt betur skilið hv. flm., ef hann flytti frv. um, að ríkið tæki gjald af öllum ábyrgðum, er það tækist á hendur, því að menn vissu þá, að hverju þeir gengju.