04.03.1940
Neðri deild: 9. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í C-deild Alþingistíðinda. (2026)

35. mál, rafveitulánasjóður

Finnur Jónsson:

Hv. þm. V.-Húnv. var að kvarta undan því, að þetta frv. fyndi ekki náð fyrir augum allra þdm., þrátt fyrir það, þó að því hefði verið breytt nokkuð frá því, sem það var á síðasta þingi.

Ég hefi nú ekki fyrir mér frv. um þetta efni frá því í fyrra, en eftir því, sem mig minnir, var þá gert ráð fyrir, að skatturinn yrði tekinn eftir lánsupphæðinni eins og hún væri á hverjum tíma og færi hækkandi eftir því, sem lánið yrði borgað niður, og eftir því, sem lánið færi lækkandi. Vænti ég, að það verði leiðrétt, ef það er ekki rétt.

Í þessu frv. er hinsvegar gert ráð fyrir því að taka sama hundraðshlutann á ári af upphaflegri lánsupphæð. Þetta kemur vitanlega í sama stað niður. Ég veit líka, að hv. þm. V.-Húnv. er þetta ljóst; furðar mig þess vegna á því, að hann skuli vera að kvarta undan því, að frv. finni ekki náð fyrir augum þeirra þm., sem voru á móti frv. um sama efni á síðasta þingi. Niðurstaðan af skattálagningunni er alveg sú sama. Í gamla frv. var gert ráð fyrir því, að hundraðshlutinn hækkaði eftir því, sem lánseftirstöðvarnar færu lækkandi, en nú á hundraðshlutinn að miðast við upphaflegu lánsupphæðina.

Vegna þess, að hv. þm. V.-Húnv. sagði, að það kæmi málinn ekki við, hvort rafveiturnar hefðu fengið ríkisábyrgð fyrir öllu láninu eða t. d. aðeins 4/5 hlutum af stofnkostnaði, vegna þess, að það er ætlazt til, að skatturinn sé tekinn af þeirri upphæð, sem ríkisábyrgðin er fyrir, vil ég benda á það, að þau fyrirtæki, sem ekki hafa fengið ríkisábyrgð fyrir öllum stofnkostnaði, hafa að ýmsu leyti orðið að sæta lakari vaxtakjörum heldur en hin, sem hafa tekið lán fyrir öllum stofnkostaði í einu lagi og með ríkisábyrgð. En þetta einmitt gerir fyrirtækin mjög mismunandi hæf til þess að geta staðið undir þessum sköttum. Og ég ætla, að hv. þm. V.-Húnv. viðurkenni þetta með mér, þegar hann athugar þetta af nýju, að þetta kemur málinu meira við en hann vildi vera láta. Ég hefi hent á það, að þessi fyrirtæki hafa haft ákaflega mismunandi stofnkostnað á hverju hestafli og mismunandi möguleika til þess að selja rafmagnið, og þess vegna yrði skattur, sem eingöngu yrði lagður á eftir þessum ákvæðum, mjög ranglátur.

Hv. þm. V.- Húnv. hélt því fram, að þeir, sem væru búnir að fá til sín rafstraum frá rafstöðvum, sem byggðar voru fyrir ófrið, losnuðu við alla hækkun af völdum styrjaldarinnar. En þetta er ekki rétt, því að það er fleira en rafstöðin, sem notendur rafmagns þurfa að nota. Það eru t. d. ýms tæki, sem ég veit ekki betur en að hafi hækkað, engu síður en annað hér í landinu síðan styrjöldin hófst.

Þá röksemd, að réttlátt sé að leggja þennan skatt á vegna þess, að þessir menn séu búnir að fá rafstraum sinn frá þessum stöðvum og verði að ýmsu leyti betur úti en aðrir, sem ekki hafa rafstraum, get ég ekki fallizt á. Það er í raun og veru ekki annað en hugsunarháttur bóndans, sem óskaði eftir, þegar hann var búinn að drepa úr hor, að það gengi jafnt yfir alla og aðrir dræpu úr hor líka.