18.03.1940
Neðri deild: 20. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í C-deild Alþingistíðinda. (2032)

35. mál, rafveitulánasjóður

*Frsm. minni hl. (Jón Pálmason):

Eins og nál. okkar hv. þm. V.-Ísf. ber með sér, höfum við ekki getað fallizt á að afgr. frv. í þeirri mynd, sem það liggur fyrirliggja til þess þær orsakir, sem ég vék að við 1. umr. málsins. Við erum sammála hv. meiri hl. n. um það, að brýn þörf sé á að auka rafmagnsnotkun í byggðum landsins. Okkur er einnig ljóst, að eins og stendur eru mjög miklir erfiðleikar á því að koma upp rafmagnsstöðvum án stuðnings frá því opinbera. Það er álit okkar minni hl, fjhn., að sú leið, sem farin er með þessu frv. til sjóðsmyndunar í þessu skyni, sé ekki heppileg. Það er óeðlilegt, að lagðir séu skattar á skuldir vegna þess að ríkið hefir gengið í ábyrgð fyrir þeim. Eins og sakir standa eru fjárhagsástæður þessara fyrirtækja þannig, að það er illa kleift að leggja á þau mikla skatta. Ég skal t. d. taka eitt slíkra fyrirtækja, sem stofnsett hefir verið í mínu héraði. Það á við mikla örðugleika að etja, og er á takmörkum, að héraðið geti staðið við skuldbindingar sínar í sambandi við það. Svo mun og um fleiri fyrirtæki, sem nú eiga við byrjunarörðugleika að stríða. Ef sanngjarnt er að taka gjald af ábyrgð ríkisins, má eins taka það af öðrum ábyrgðum. Nú er svo, að í árslok 1938 námu skuldir þær, sem ríkið var í ábyrgð fyrir, allt að 72 millj. kr. Síðan hefir bætzt við ábyrgð fyrir hitaveitu Reykjavíkur og rafmagnsveitu Akureyrar, svo að það eru nú milli 80 og 90 millj. kr. Það hlýtur flestum að finnast það harla óeðlileg leið, að ríkið fari nú að taka gjald fyrir þessar ábyrgðir, þar sem búast má við, að skuldirnar falli á ríkissjóð fyrr eða síðar. Ég vil þess vegna, að Alþ. fari alls ekki inn á þá braut að taka þannig gjald af ábyrgðum eftir á. Hinsvegar getur verið ástæða til að fara inn á þá braut að taka gjald af ábyrgðum ríkisins á komandi árum. Ég held, að það sé ekki af beinum fjárhagsástæðum, sem hið opinbera leggur gjald á ábyrgðir, eftir því, sem hér er ætlazt til. Því frekar er hægt að hugsa sér að leggja gjald á þessar upphæðir, því lengra sem fyrirtækin eru komin í að borga skuldir sínar. M. ö. o.: eftir því, sem fjárhagsástand viðkomandi fyrirtækja batnar, og því minni skuldir, sem það á eftir að greiða, þess réttlátara yrði þetta gjald. Ég hugsa mér, að þó að það verði ekki á næstu árum, þá stefni fyrr eða síðar að því, að ríkið verði að vera til aðstoðar því, að þessi þægindi komizt sem viðast á úti um allt land.

Nú mun hv. þdm. ljóst, að við nokkrir þm. úr Sjálfstfl. bárum fram annað frv., sem fer fram á, að ríkið leggi fram ákveðna fjárhæð árlega í næstu 10 ár til að gera almenningi kleift að njóta þæginda rafmagnsins. Mín skoðun er, eins og ég hefi lýst í sambandi við íþróttasjóðinn, að alger þarfleysa sé að mynda slíka sjóði. Allir skattar, sem hið opinbera leggur á, eiga að ganga beint inn í ríkissjóð og verða svo varið á þann hátt, sem Alþ. ákveður í hvert sinn. Annars skal ég taka það fram, að mér finnst sú leið eðlileg á þessu sviði, sem stungið er upp á í brtt. hv. þm. Borgf. Ég mun þó ekki slá neinu föstu um mína persónulegu afstöðu til þeirra, en eins og sakir standa, álít ég eðlilegt að deyða alveg þetta frv. um rafveitulánasjóð á þskj. 42. Á hvern hátt sem ríkið veitir þessu máli aðstoð sína, vona ég, að hún geti orðið að sem mestum notum og borið tilætlaðan árangur. Því betur sem almenningur fær fyrr notið þessara þæginda. Náttúrlega er mér ljóst, að ekki er hægt að gera mikið á þessu sviði meðan stríðið stendur. En svo mun og um fleiri mál, og við vonum aðeins, að sá tími vari ekki lengi. — Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. og sé ekki ástæðu til langra umr. um það.