18.03.1940
Neðri deild: 20. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í C-deild Alþingistíðinda. (2036)

35. mál, rafveitulánasjóður

*Frsm. meiri hl. (Sveinbjörn Högnason):

Þó ýmislegt hafi komið fram í umr., og það ekki allt sem réttast, þá held ég, að sjaldan hafi verið sagt meira öfugmæli í þinginu en það, sem hv. þm. V.-Ísf. sagði áðan, að ef komið væri gjaldi á þær rafveitur, sem fyrir hendi eru, þá væri verið að koma því á þá aðila, sem væru mállausir hér á Alþ. Ég held, að það hafi komið fullgreinilega fram nú þegar, hvort þessir aðilar eru mállausir eða ekki, því meiri hluti þess tíma, sem búið er að ræða málið. hefir verið notaður til að verja þessa aðila, og býst ég við, að þetta komi betur í ljós síðar. Það er líka svo, að þeir aðilar, sem hér er rætt um að skattleggja til þess að koma upp rafveitum í strjálbýlinu, eru í þéttbýlinu og búnir að fá þessi þægindi og nota þau yfir lengri tíma, en ég býst við, að það þurfi að kvarta undan öðru meir en því, að þéttbýlið sé mállaust hér á Alþ.

Það ber öllum saman um, að mikil þörf sé á að gera þetta. Allir vilja verða fyrstir til að koma málinu í framkvæmd, þó a:ð undanskildum minni hl. n., sem vill víkja öllu málinu til stj., en við vitum, að það þýðir að svæfa málið í bráð og kannske í lengd.

Ég held, að það geti varla verið um það að deila, hvaða aðilar eigi að standa undir því að koma málinu áleiðis, en það eru þeir, sem um er rætt í frv., enda hafa þeir bezta aðstöðu og hafa fengið hjálp til að koma rafveitum upp hjá sér, og þeir beinlínis græða á því, ef rafveitur aukast. Sogsvirkjunin t. d. stórgræðir á því, ef það verða fleiri og fleiri, sem fá rafmagn þaðan. Það er því ekki nema eðlilegt, að þessir aðilar leggi fram gjald, sem verður þá fjárhagslegur styrkur til hinna, sem enn hafa ekki fengið þessi gæði. Á hinn bóginn er svo gert ráð fyrir í frv., að hið opinbera veiti hjálp til þeirra, eins og það er búið að veita með hinum svokölluðu ábyrgðum til hinna, sem búnir eru að fá rafveitur.

Hv. frsm. minni hl. talaði um, að fjárhagsástæður rafveitnanna væru svo örðugar, að það væri ekki hægt að gera þetta eins og sakir stæðu. Hvers vegna eru fjárhagsástæður þeirra svo örðugar? Er það ekki af því, að þær afla sér ekki nægilegra tekna? Það er vitað, að allar hinar stærri rafveitur selja ódýrara rafmagn en þekkist nokkurstaðar annarstaðar á Norðurlöndum. Það er því ekki til lítilla hagsbóta fyrir neytendurna, að hafa svo lágt verð á rafmagninu, ekki sízt á þessum tímum, þegar allt eldsneyti hefir stigið geysilega í verði.

Ég álít það því ekki neinn háskalegan hlut að jafna svolitlu niður á neytendurna, til þess að dreifa því frekar til þeirra, er verri aðstöðu hafa.

Það er því ekki nema fyrirsláttur, að fjárhagsástæður rafveitnanna séu svo örðugar, að þær þoli þetta ekki, því það eru ekki þær, sem eiga að taka þetta á sig, heldur eiga neytendurnir að bera þetta uppi í örlítið hækkuðu gjaldi. Slíkt ætti ekki að vera erfitt, þegar allir verða að sæta því að kaupa kol og olíu fyrir helmingi hærra verð.

Þá taldi hv. frsm. minni hl. óeðlilegt að taka gjald af ábyrgðum, þar sem sumar þeirra féllu kannske á ríkið sjálft. Ég vil segja, að það sé þvert á móti eðlilegt, ef áhættan er svo mikil, að ríkið verður að borga töluvert af þeim, að tekið sé gjald fyrir að ganga í þessar ábyrgðir. Það mun vera rétt hjá hv. frsm. minni hl., að það hafa komið skakkaföll á ríkið vegna þeirra ábyrgða, sem það hefir orðið að ganga í.

Hv. frsm. minni hl. taldi hinsvegar, að í framtíðinni myndi hann geta fallizt á, að skattur væri lagður á þau þægindi, sem skapast við þetta. Það er ekki annað, sem farið er fram á í frv., en það, að ofurlítill skattur sé lagður á þá, sem þegar hafa fengið þægindin, til þess að hinir eigi auðveldara með að afla sér þeirra, sem enn hafa ekki fengið þau.

Þar sem hv. frsm. minni hl. sagði, að hann vildi ekki hafa sjóði utan ríkissjóðs, heldur ætti ríkissjóður að vera hinn eini sjóður, sem til væri í landinu, þá finnst mér það nú nokkuð harðvítugur ríkisrekstur, að halda því fram, að það megi ekki mynda sérsjóði til að hrinda í framkvæmd ýmsum hlutum, án þess að leggja það fyrst í ríkissjóðinn. Mér finnst það allt of römm tilhneiging til ríkisrekstrar að geta ekki gengið inn á slíkt. Mér finnst t. d. réttmætt, að bæjar- og sveitarsjóðum sé haldið sjálfstæðum áfram og þeir hafi sína sérstöku skattstofna. Það hefir líka oft verið rætt um það, að búið væri að taka of mikið af skattstofnum bæjar- og sveitarfélaga. Ég álit, að margt í því sé réttmætt og það sé ekki skynsamlegt að taka alla skattstofna í landinu og láta þá renna í ríkissjóð. Ég er viss um, að það er mjög rangur hugsunarháttur og ekki skynsamlegur, að allt eigi að reka af ríkinu.

Um brtt. hv. þm. Borgf. get ég sagt það, að ég hefi borið þær undir þá, sem ásamt mér mynda meiri hl. fjhn., og getum við fyrir okkar leyti fallizt á, að þær verði samþ., þó þær fari ekki að öllu leyti í sömu átt. Eins og nál. ber með sér, þá eru þær í aðalatriðum það sama og vakað hefir fyrir okkur, því það hefir ekki verið aðalatriðið, á hvern hátt féð væri tekið af rafveitum þeim, sem fyrir hendi eru, heldur að féð fengist og myndaður væri sæmilegur grundvöllur, sem hægt væri að standa á. Ég get ekki annað séð en það sé hægt með brtt. hv. þm. Borgf. Það má kannske segja, að í framtíðinni sé fullt eins mikill möguleiki fyrir sjóðinn að fá þetta fé með því móti. Við höfðum frv. í upphafi á þennan veg, að því er snertir undirstöðuna fyrir því að fá þetta fé. vegna þess, að við álitum, að það væri sterkast að standa á því, að þetta fé kæmi sem nokkurskonar ábyrgðargjald til hins opinbera, en það má segja, að það sé kannske alveg eins réttlátt. að það megi skattleggja þessi þægindi, og þá eins þá, sem búnir eru að borga lánin upp.

Við, sem myndum meiri hl. n., getum því fallizt á, að þessar till. hv. þm. Borgf. verði samþ. Hv. þm. V.- Ísf. sagði, að hér væri verið að skattleggja eftir á, sem ekki væri vanalegt að gera. Hann sagði, að t. d. hjá bönkunum, sem tækju tekjur sínar af vöxtum, gengi þetta jafnt yfir alla. Þetta er ekki rétt hjá honum, enda hlýtur hann sem bankastjóri að vita betur. Vextir bankanna á mismunandi lánum eru mjög mismunandi. Það eru ekki sömu vextir hjá Landsbankanum, og t. d. Búnaðarbankanum, og veit ég ekki til, að forstöðumenn þessara stofnana hafi neitt samvizkubit út af því. Hann sagði líka, að ríkisábyrgðirnar gerðu lánin ekki ódýrari en annars. Ég held, að þetta sé ekki að öllu leyti rétt, að það sé alveg sama og lánin séu ekki neitt ódýrari erlendis, þó að ríkisábyrgð sé tekin, en annars. Hvernig gæti annars staðið á því, að fjvn. ætlar nú að flytja till. um að fá ríkisábyrgð fyrir raforkuláni Hafnarfjarðar, og er ætlazt til þess, að ríkissjóður fái létt kostnaði af því á eftir; þar sem hann stendur undir láninu og léttir ábyrgð af bankanum, þá ætti þetta að verða til þess, að Hafnarfjörður losni undan því að fá frekari ríkisábyrgð. Það er engum blöðum um það að fletta, að enda þótt ekki sé um mjög stórt þjóðfélag að ræða hjá okkur, og þess vegna ekki lagt eins mikið upp úr ríkisábyrgð hér eins og annarstaðar, þá muni ríkinu þó frekar verða veitt lán með sæmilegum kjörum heldur en einstaklingum, eins og maður hefir líka séð, að íslenzka ríkinu hafa verið veitt aðgengilegri lán en öðrum.

Um það, að þetta geti alls ekki komið til greina, þegar um skuldug fyrirtæki er að ræða, sem ríkið treystir sér ekki til að leggja fram neitt fé á móti, þá er það alls ekki rétt. Það stendur skýrt fremst í 1. gr. frv., að framlagið sé úr ríkissjóði eftir því, sem ákveðið er í fjárl. Það kemur vitanlega fyrst og fremst í hlut ríkissjóðs að styrkja rafveitulánasjóðinn með framlögum, og sá styrkur getur verið misjafnlega mikill eftir ástæðum, og getur orðið allriflegur þau árin, sem flestum rafveitum er komið upp, en lægri annars, enda bera l. það greinilega með sér. Þess vegna er ekki að öllu leyti rétt að segja, að ríkið eigi ekki að leggja neitt fé fram á móti þessu.

Um það, að yfirleitt sé ekki hægt að leggja raflagnir í sveitum landsins vegna strjálbýlis, er það að segja, að það er einnig viða mjög erfitt í nágrannalöndum okkar, Noregi og Svíþjóð, því að þar er víða strjálbýlt, og hafa þar verið settar upp minni rafmagnsstöðvar. Enginn vafi er á því, að í mörgum sveitum hér á Íslandi muni verða allt of erfitt að koma upp rafstöðvum nema fyrir hvern bæ út af fyrir sig, en þéttbýlum sveitum getur orðið nokkur styrkur að þessum sjóði, svo framarlega sem lánskjör eru sæmileg, og þegar gerðar eru mælingar fyrir rafstöðvum, þar sem strjálbýlt er, yrði að taka til greina, hvort þau héruð gætu ekki fengið litlar rafstöðvar. Ég hygg því, að þó það hafi alls ekki verið fá orð og aths., sem fram hafa komið við þetta frv. frá þeim, sem ekki hafa verið mállausir hér á Alþ., þá hafi þm. ekki gert sér það alveg ljóst. Ég sé ekki, að það hafi verið færð fram rök fyrir því, að þessi sjóður, eins og hann er byggður upp, muni ekki áreiðanlega fá nóg verkefni að vinna og mjög vel framkvæmanlegt, því að víða vantar rafstöðvar enn, og þar sem þær hafa verið reistar, hefir yfirleitt verið lítið gert til að styrkja aðstöðu þeirra, sem hafa fengið þær. Þar sem nú má telja víst, að dýrtíðin fari vaxandi, er það sérstaklega mikilsvert að geta sparað kaup á erlendu eldsneyti og ljósmeti.

Ég vil vænta þess, að þetta frv. fái greiðan gang gegnum hv. Nd., og ég er sannfærður um, að ef ætti að vísa því til hæstv. ríkisstj., yrði það til þess að fresta því um fleiri ár, því að maður veit ekki, hvað fyrir getur komið. Kosningar geta orðið þá og þegar, og er ólíklegt, að hæstv. ríkisstj. gæti undirbúið málið miklu fyrir þann tíma. Ég hygg því, að það sé komið fram, að hér sé um réttmætt mál að ræða og öllum hv. þm. verði sýnilegt og skiljanlegt, að mikilsvert er að aðstoða þá, sem eiga erfiða aðstöðu hvað þetta snertir, og hv. þm. vilji þess vegna greiða fyrir því, að þetta frv. verði að l.