15.04.1940
Neðri deild: 36. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í C-deild Alþingistíðinda. (2050)

37. mál, útflutningur á áli

*Frsm. minni hl. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti! Við höfum nm. ekki getað orðið samála um afgreiðslu þessa frv., og í raun og veru get ég að miklu leyti, eins og hv. frsm. meiri hl., vísað til þess nál. á þskj. 450, sem ég hefi gert um málið sem minni hl. sjútvn.

Ég vil þó bæta því við, að það hefir verið venjulegt, síðan ég fór að taka þátt í þingstörfum, að veita ekki slík sérleyfi, nema um væri að ræða brautruðning á einhverju sviði. Ég álit. að það eigi ekki að veita slík sérleyfi til þess að verzla með vöru, sem er opinn markaður fyrir og ekki virðist þörf neinnar sérstakrar rannsóknar á eða neins sérstaks kostnaðar til að vinna markaði fyrir utanlands eða innan.

Nú er það svo með álinn, að því hefir ekki verið gaumur gefinn að afla hans hér á landi, hvorki til innanlandsneyzlu né útflutnings. Þetta mun þó verða gert strax og augu manna opnast fyrir því, að þarna er um mjög verðmæta vöru að ræða. Um markaðinn er það að segja, að hann er algerlega opinn. Hann hefir verið það um langan tíma, og það er mikill og góður markaður fyrir þessa vöru í nágrannalöndum okkar, bæði fyrir lifandi ál og eins verkaðan, sérstaklega reyktan. Þessi markaður virðist vera meiri en sú vara, sem á markaðinn hefir flutzt. Að sönnu er það svo, að sökum styrjaldarinnar má telja, að sum beztu markaðslöndin séu lokuð. Bezti markaðurinn hefir verið undanfarin ár í Þýskalandi. Þess er þá líka að gæta, að þau lönd, sem nú eru lokuð, eru kannske sum þau lönd Norðurálfunnar, sem afla mest af ál.

Ég hefi sett hér í nál. yfirlit úr síðustu hagskýrslum um veiði og sölu áls frá 1937. Á þeim skýrslum er hægt að sjá, að í 7 löndum, sem hafa aðalmarkaðinn, voru seldar rúmlega 13 þús. smálestir af ál. Markaðurinn hefir verið mismunandi, frá 0.81 sh. upp í 2.25 sh., sem var markaðsverð þetta ár í Þýzkalandi. Mesta álaveiðilandið er Danmörk, sem sendi á markaðinn rúmlega 4000 smál. af ál. Næst er Lettland með 4000, Þýzkaland með 2500, Svíþjóð með 1725 smál. Það er því sýnilegt, að viss markaður yrði fyrir álinn. viðvíkjandi rannsóknum á lifnaðarhætti álsins og veiðiaðferðum, þá er vitanlegt, að fyrst áll hefir verið veiddur um fjöldamörg ár, munu þeir menn, sem þessa veiði stunda, kunna á því fullkomin skil. Eftir því, sem mér hefir verið skert frá, er nægar heimildir og leiðbeiningar að fínna í ritgerðum um þessi efni, og það er furðu einfalt. Það er rétt, sem hv. frsm. tók fram, að álaklak getur hér ekki verið um að ræða. Eftir því, sem ég bezt veit, hafa mannsaugu aldrei litið hrogn úr ál. Hann leitar til sjávar, þegar hann er kynþroska; menn vita það eitt, að hann hrygnir í suðlægum djúphöfum. Vísindamenn segja, að hann hrygni ofarlega í hlýjum sjó, en ekki hefir tekizt að ná álahrognum til rannsóknar. Menn vita, að hann gengur í ár og vötn í norðlægum löndum og er þá orðinn talsvert stór, 6–10 em. á lengd. Eins og mörgum mun kunnugt af ritgerðum um þessi efni, þá fara þessi seiði upp í læki og ár og fara jafnvel yfir þurrt land, til að komast í tjarnir og síki. Þar dvelja þau í 4 ár, virðast þá vera orðinn kynþroska og leita til sjávar. Á þeirri leið til sjávar eru þau veidd í nágrannalöndunum í gildrur, sem eru, eftir sögn, mjög einföld veiðitæki. Enn er órannsakað, hve mikið af ál gengur hér á land en margt bendir til þess, að hér yrði hægt að veiða hann í stórum stíl. Yrði þá að flytja álaseiði í vötn og tjarnir, til þess að hjálpa til við uppeldið. Ef það reyndist örðugt, þá eru álaseiðin verzlunarvara, sem flytja mætti út og selja. Áður en þessi styrjöld hófst, voru álaseiði flutt milli landa, einkum frá Lettlandi. Þó að ekki tækist að veiða ál hér í stórum stíl, þá yrði auðvelt að koma upp álastofnunum, því fyrst og fremst yrðum við greiða fyrir uppeldi álsins, þó að það tækist ekki með klaki. Ef hér yrði tekin upp almenn álaveiði, yrðu það einkum bændur víðsvegar um landið, sem bæði veiddu álinn og kæmu honum í verð.

Ef ég vildi láta í ljós mína persónulegu skoðun á þessu máli, þá lít ég svo á, að varla verði áll mikið fluttur lifandi héðan til annara landa. Hann er reyndar mjög lífseigur og er þannig byggður, að hann getur lifað lengi í raka. Þó að auðvelt sé að flytja hann, yrði það þó falsvert erfitt og umbúðirnar dýrar, og eftir því sem ég held, yrði útflutningur einkum á reyktum ál. Ég hygg, að ef tækist að flytja út ál, þá myndi það reynast drjúg búbót fyrir margan bóndann, sem stundaði þessa veiði. Má nærri geta, hversu verra væri, ef einkaleyfi á sölu áls væri í höndum einstakra manna, heldur en ef bóndinn gæti selt hæstbjóðanda þessa vöru. Það er ekki ólíklegt, að nægilega margir menn fengjust til þess að selja álinn erlendis, en ef reyndust einhverjir örðugleikar á því, væri S. Í. F. skylt að greiða fyrir þeim viðskiptum, svo að framleiðendur fengju fullt verð fyrir vöruna að frádregnum kostnaði. Ég sé því enga ástæðu til að veita sérleyfi fyrir útflutningi á þessum vörum, þrátt fyrir það, þó að ég efist ekki um, að sérleyfishafarnir mundu leggja sig alla fram til að koma álnum á góðan markað. Ég legg þess vegna til, að þetta frv. verði fellt.