16.04.1940
Neðri deild: 37. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í C-deild Alþingistíðinda. (2052)

37. mál, útflutningur á áli

Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Mér virðist að af hendi þeirra manna, sem stofnað hafa þetta félag, sem hér um ræðir, og einnig af hendi hv. flm., sem flytja þetta frv., hafi málið ekki verið svo undirbúið sem maður hefði getað vænzt af hálfu þeirra manna, sem fara fram á það að fá einkaleyfi til sérstaks atvinnurekstrar hér á landi. Eftir því, sem ég bezt veit, munu þrír menn hafa stofnað þetta Álaræktarfélag, og eru það Egill Thorarensen kaupfélagsstjóri að Selfossi, Björn Ólafsson stórkaupmaður og Þorlákur Guðmundsson forstjóri niðursuðuverksmiðju S. Í. F. Og eftir því, sem stendur í reglugerð félagsins, þá er þar m. a. tekið fram. sem hv. minni hl. n. hefir hér „krítiserað“, að þetta félag ætti að sjá um þetta fræga álaklak. Og í grg. frv. virðist mér sem flm. frv. hafi tekið að mestu trúanlegt það, sem þessir menn, sem félagið stofnuðu, sögðu, án þess að rannsaka nokkuð, hvort það væri á rökum byggt.

Hinsvegar virðist svo sem þessir þrír menn. sem félagið stofnuðu, hafi jafnvel séð, að þarna kynni að vera um gróðaveg að ræða, sem þeir yrðu að tryggja sér, og jafnvel ekkert um það skeytt, hvort boðlegt væri að leggja slíkt fram hér á Alþ. og án þess að taka tillit til þeirra manna, sem hafa haft og kynnu að hafa atvinnu af þessari álarækt. Það eru ekki þeir menn, sem veiða þennan ál og selja, sem fara fram á þetta einkaleyfi, heldur eru það menn, sem virðast af spákaupmennsku vilja tryggja sér þessi veiðihlunnindi. Ég veit ekki betur en um nokkur ár hafi verið unnið að því af mönnum, sem hafa verið búsettir hér á landi, að veiða ál og flytja hann út. Og í raun og veru er engin ástæða til þess að svipta þessa menn þessum réttindum með l. frá Alþ. og fá þau í hendur mönnum, sem hafa atvinnu af öðru og ekki líta á þetta nema sem gróðafyrirtæki.

Ég álít, að nóg sé orðið um þau einkaleyfi, sem hér hafa verið gefin, sem tryggja gróðaaðstöðu einstakra manna og ganga um leið á rétt annara og gera þeim erfitt fyrir og jafnvel ókleift að afla sér atvinnu. Og álít ég þess vegna, að þetta einkaleyfi, sem hér er farið fram á, eigi ekki að veitast. Ég mun þess vegna greiða alveg ákveðið atkv. með till. hv. 6. þm. Reykv., minni hl. n., um að fella frv.