16.04.1940
Neðri deild: 40. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í C-deild Alþingistíðinda. (2055)

37. mál, útflutningur á áli

Bjarni Bjarnason:

Ég vil segja nokkur orð um þetta mál, en enginn þeirra manna, sem hafa mælt á móti málinu eða kvatt sér hljóðs og mér er kunnugt um, að séu andvígir því, eru viðstaddir, svo að það er erfiðara að ræða málið fyrir þá sök.

Við 1. umr. gaf ég yfirlit um lifnaðarhætti álsins og hvaða möguleikar væru fyrir hendi að veiða hann og selja. Þetta hefir verið endurtekið sérstaklega af hv. 6. þm. Reykv., og er nokkuð að því víkið í því áliti, sem hann hefir gefið út sem minni hl. sjútvn. í sambandi við þetta mál. Ég get ekki neitað því, að mér þykir einkennileg þessi mótstaða, sem málið fær í þessari d., sérstaklega þegar athugað er, að fiskiveiðar hafa verið höfuðatvinnuvegur þessarar þjóðar allt frá landnámstíð, en það er vitað, að þessi fiskitegund, állinn, er til hér við land í lónum og tjörnum og öðrum slíkum stöðum, og ennfremur er vitað, að állinn er verðmæt markaðsvara erlendis, en litið notuð innanlands. Út frá þessu sjónarmiði finnst mér einkennilegt, að menn skuli risa upp gegn því, að hafizt sé handa og reynt að ryðja þessu máli braut, og með því beinlínis að skapa nýja atvinnugrein, sem ekki hefir verið stunduð hér áður. Ég hélt, að slíkur áhugi væri virðingarverður og vel þess vert, að eitthvað væri hlynnt að honum.

Ýmsir ræðumenn hafa aðallega flutt mótmæli sín á þeim grundvelli, og einnig er vikið að því í nál., að það skipti ekki miklu í sambandi við þetta mál, hvort sú aðferð er höfð til þess að rækta þennan fisk, að hrygnurnar séu teknar og kreist úr þeim hrognin og seiðin síðan alin upp á svokölluðum klakstöðvum, eða þetta stig þróunarinnar fer fram í sjónum og síðan sé glerállinn veiddur, en þetta skiptir minnstu máli og hefir engin áhrif á það, hvort hægt sé að glæða álalíf í tjörnum og síkjum, og hér er verið að stefna að því, að þetta verði rannsakað, og er það ekki lítilsvirði og tel þess vert, að að því sé hlynnt.

Það kom einnig fram sem mótbára gegn málinu við 1. umr., að hér væri verið að gera tilraun til atvinnukúgunar. Ennfremur kom það fram hjá hv. 6. þm. Reykv., og enda líka hv. 5. þm. Reykv., að hér sé sett hindrun í veg fyrir þá, sem hefðu atvinnu af álaveiði eða álasölu eða kynnu að vilja veiða ál. Þetta er algerlega rangt. Þessir menn eru ekki til, og þessi atvinna er ekki til, en það er eins og þessum hv. þm. finnist fjarstæða, að hlynnt sé að því, að þessi atvinna sé hafin eða menn hvattir til þessa. Eftir heimildum, sem ég hefi fengið, hefir áll aldrei verið fluttur út. Þetta hefir komizt það lengst. að það hefir verið leitað eftir verði á ál erlendis. Hinsvegar hefir sérstaklega einn áhugamaður gert dálítið til að veiða ál og selt innanlands og eitthvað í skip. Þessi vara hefir líkað vel,

þar sem hún hefir verið reynd, og hefi ég frétt það eftir mönnum, sem hafa neytt bæði þess íslenzka og erlenda áls, að þeim hafi líkað sá íslenzki betur. Það er því alls ekki þannig, að menn veiði hér ál til þess að flytja hann út. Einnig get ég upplýst, að þótt hv. 6. þm. Reykv. haldi því fram í nál. sínu, að þessi veiðiaðferð sé mjög ódýr, þá er það alls ekki rétt. Álagildra ein út af fyrir sig kostar nú sjálfsagt 50 kr. Mér er sagt, að ekki þýði að hafa færri net en 10, og þann kostnað geta bændur ekki lagt í. þótt þeir eigi veiðirétt. Ennfremur eru kassar, sem notaðir eru til að flytja álinn í til annara landa, mjög dýrir, þar sem ekki fara nema 60 kg. í hvern kassa. vitanlega má senda kassana heim aftur, en það hlýtur þó að þurfa mikið af þeim, og það geta efnalausir menn ekki ráðið við. En það er ekki útilokað, að með því að þessu máli hefir verið hreyft á Alþingi, þá hafi komizt sú hreyfing á, að þótt málinu verði vísað til stjórnarinnar, eins og hv. 1. þm. Skagf. leggur til, þá verði það málinu til góðs að hafa verið borið fram nú, því að þrátt fyrir það, þótt mér fyndist, að sjútvn. hafi legið á málinu, þá komst hún samt að þeirri niðurstöðu, að málið væri þess vert, að það væri afgr. hér á Alþ. Og þrátt fyrir það, þótt hún hafi takmarkað sérréttindin við lifandi ál og 5 ár, sem hvorttveggja er numið við neglur sér, þá vill félagið samt sem áður taka við svona sérréttindum. Leiðin er opin fyrir alla, sem þessu máli vilja sinna, bæði að flytja út frystan ál og reyktan. Mér finnst það mjög einkennilegt, að hv. þm. skuli hafa löngun til að kyrkja þessa litlu tilraun í fyrsta skipti, sem slíku er hreyft, vitandi það, að ekkert er nú gert í þessu máli, og vitandi það, að ekkert muni verða gert í því í framtíðinni, ef ekki verða einhverjir hvattir sérstaklega til þess. Í nál. minni hl. er það réttilega tekið fram, að hér sé aðeins um framtaksleysi að ræða. En þrátt fyrir þetta vill sá hv. þm., sem að þessu nál. stendur, halda áfram að styðja að þessu framtaksleysi. Hann segir, að veiðiaðferðir allar séu ódýrar. Þetta er nú að vísu ekki rétt, en ef svo væri, þá ætti það að vera stuðningur við málið. Ennfremur bendir þessi hv. þm. á það, að verðið erlendis sé gott fyrir álinn. Og samt sem áður vill hann hindra framgang þessa máls.

Ég legg ekki í vana minn að vera með málalengingar. Ég gerði grein fyrir frv. við 1. umr. og hefi áréttað það dálitið nú. Þær mótbárur, sem fram hafa komið gegn frv., eru einskis virði.

Ég vænti þess fastlega, að þeir hv. þm. verði fleiri, sem vilja greiða götu þessa máls, í samræmi við frv. mitt og brtt. meiri hl. sjútvn., en hinir, sem vilja standa í vegi fyrir því.