01.03.1940
Neðri deild: 8. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í C-deild Alþingistíðinda. (2079)

26. mál, gengiskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti! Eins og hv. þm. er kunnugt frá síðasta Alþ., þá er aðalatriði þessa frv., sem ég ber fram ásamt hv. 4. landsk., það, að verklýðsfélög og önnur samtök fái aftur þann rétt, sem þau höfðu til að semja um kaupgjald eða knýja fram samninga um kaup eftir því sem þau megna á hverjum tíma. Þetta er aðalatriðið, sem felst í 1. gr. þessa frv.

Ég býst ekki við að þurfa að halda langa ræðu um þetta mál, því að flestum hv. þm. mun vera vel kunnugt um, og það er viðurkennt af öllum, að gengisl. sviptu verklýðsfélögin þeim dýrmætu mannréttindum, sem þau höfðu yfir að ráða, sem sé að mega þó a. m. k. ráða sinu kaupgjaldi og fyrir hvað þau selja sitt vinnuafl. Það þýðir lítið fyrir hv. þm. að halda því fram, að það sé óhæfa að svipta verkalýðinn sínum rétti, en láta þó slíkt viðgangast.

Enda þótt ekki sé langur tími liðinn síðan síðasta Alþ. var háð, þá vildi ég og hv. 4. landsk. flytja þetta frv. aftur, sem við fluttum á síðasta Alþ.

Ég vil geta þess, að sá mannfjöldi, hvers réttindi eru skert með þessu lagaákvæði, er hvorki meira né minna en hér um bil helmingur allra landsbúa. Það er talið samkv. manntalsskýrslum, að helmingur íslenzku þjóðarinnar lifi af launum. Þess vegna er réttur helmings þjóðarinnar borinn fyrir borð með þeim l., sem samþ. voru hér á Alþ. 4. apríl 1939, og aftur framlengd og breytt á síðari hluta þess þings. Ég las upp í sambandi við síðari umr. þessa máls á síðasta Alþ. áskoranir frá mörgum verklýðsfélögum, er allar hnigu í þá átt að veita verklýðsfélögunum aftur þennan rétt. Ég ætla ekki að þreyta þm. á því að lesa þær upp aftur, en aðeins vísa til þess, sem er ómótmælt, að næstum hvert einasta verklýðsfélag á landinu, sem hefir tekið málið til umr., óskar eftir að fá aftur þennan rétt, og það hefir ekki komið frá einu einasta verklýðsfélagi eða samtökum launþega krafa um, að það ástand haldist áfram, sem nú er.

Í öðru lagi er gengið út frá því í þessu frv., að vilji hinsvegar samtök verkamanna og atvinnurekenda ekki nota sér þann rétt, að útkljá kaupgjaldsmálin sín á milli án afskipta ríkisvaldsins, eins og frumvarpið veitir þeim rétt til, — að þá komi sérstök vísitala til greina, og laun verkamanna og annara launþega hækki samkvæmt henni. Sú breyting, sem við leggjum til, að gerð verði frá núgildandi ákvæðum, er í aðalatriðum sú, að vísitalan verði reiknuð út fyrir hvern mánuð, og kaupið hækki næsta mánuð samkv. því hlutfalli, sem dýrtíðin hefir aukizt. En nú er það svo, eins og hv. þm. er kunnugt, að kaup verkamanna hækkar ekki fyrr en eftir hér um bil 3 mánuði. Það er tekið meðaltal af hækkun vísitölunnar á hverjum ársfjórðungi, og kaupið hækkað í byrjun næsta ársfjórðungs, en þó ekki fullkomlega eins og vísitalan sýnir, heldur aðeins nokkur hluti þar af; venjulega hækka launin um 3/4 hluta af því, sem dýrtíðin vex. Þetta sýnir, að dýrtíðin hefir komið afarþungt niður á verkalýðnum. Ég vil leyfa mér að benda hv. þm. á að athuga Hagtíðindin fyrir janúarmánuð og Hagtíðindin, sem koma út fyrir febrúar, til að sjá, hvernig afstaða verkamanna er hvað launakjörin snertir. 1. febr. 1939 var visitalan fyrir matvöru 192, en 1. febr. 1940 241. Þetta þýðir m. ö. o., að matvaran hefir hækkað um hvorki meira né mínna en 25%, en á sama tíma hækkar kaup verkamanna aðeins um 9%, þar sem það hefir hækkað mest. Þó eru til aðrir liðir, sem hafa hækkað meira en matvara, t. d. eldsneyti. Ennfremur er rétt að veita því athygli á þeim ársfjórðungi, sem nú er að líða, hvernig sá útreikningur, sem notaður er eftir gildandi l., kemur niður á verkamönnum. Í janúarmánuði lætur nærri, að matvara hafi hækkað um 5%, og í febrúarmánuði má ganga út frá því, að hún hafi hækkað um 3%, og ekki ólíklegt, að hún hækki a. m. k. eins mikið í marzmánuði. Hækkun á matvöru mun því verða a. m. k. 15% á þessum þremur mánuðum, og hvað kaupgjaldið snertir er þetta reiknað þannig, að það er tekið meðaltal af verðhækkuninni á matvöru, sem verður 71/2%, og part af þeirri hækkun fá verkamenn 1. apríl, og því meira sem dýrtiðin eykst, því meira dregst þessi litla kauphækkun aftur úr. Með hverjum ársfjórðungnum, sem liður, verður dýrtiðin tilfinnanlegri fyrir verkamenn og alla þá launþega, hverra laun eru reiknuð eftir vísitölunni. Sá grundvöllur er svo rangur gagnvart verkalýðnum, að hann er algerlega óhæfur.

Nú myndu menn segja sem svo, að þetta væri ekki sérstaklega óréttlátt, ef sú stétt þjóðfélagsins, sem ætti við skerðingu kaupgjaldsins að búa, væri vel undir þetta búin. Ég skal minnast á það og geta þm. nokkrar upplýsingar samkv. hagskýrslum. Samkv. hagskýrslum hefir verið reiknað út, að 5 manna fjölskylda hér í Reykjavík þurfi hátt á fimmta þúsund kr. á ári til þess að geta framfleytt sér sómasamlega, og eftir þá verðhækkun, sem hefir orðið nú síðustu mánuðina, mun láta mjög nærri, að 5 manna fjölskylda þurfi 5 þús. kr. eða þar yfir á ári til þess að geta lifað án þess að líða skort. Þetta er samkv. útreikningi Hagstofu Íslands.

Nú liggja fyrir skýrslur frá opinberri nefnd. skipulagsnefnd atvinnumála, sem reiknaði það út árið 1934, að meðalárstekjur verkamanna í Reykjavík væru milli 2000 og 2100 kr., og ég býst við, að það megi ganga út frá því, að meðalárstekjur verkamanna séu ekki hærri en 2100 kr. nú. Hvaða möguleika hefir verkalýðurinn til að lifa af þessum tekjum? Þetta þýðir það, samkv. skýrslum Hagstofu Íslands, að þeir verkamenn, sem hafa fyrir 5 manna fjölskyldu að sjá, hafa rétt aðeins tekjur, sem hrökkva fyrir þeim matvælum. sem Hagstofan telur, að séu nauðsynleg, því að samkv. útreikningi Hagstofunnar þarf rúmlega 2 þús. kr. á ári í fæði handa 5 manna fjölskyldu. En þá er ekki einn eyrir afgangs fyrir kolum, rafmagni, gasi, fatnaði og húsnæði og öllum öðrum þörfum en mat. Eða ef við segjum sem svo, að 3 manna fjölskylda gæti veitt sér húsnæði, fatnað, nokkuð af kolum, rafmagni, gas og annað slíkt, þá hefði hún ekki neitt eftir fyrir mat, hvorki mjólk né annað. Þannig horfir ástandið við fyrir verkamannastéttina. Kjör hennar eru þannig, að hún hefir að meðaltall helmingi lægri laun en reiknað er, að 5 manna fjölskylda þurfi til að geta lifað. En síðan 1934 hafa kjör verkamannastéttarinnar farið versnandi, ekki aðeins vegna vaxandi dýrtíðar, heldur líka vegna þess, að atvinnan hefir minnkað, og þess vegna mun þurfa að lækka meðalárstekjur töluvert, til þess að alveg sé hægt að byggja á þessum útreikningi. Kjörin, sem verkamannastéttin á við að búa, eru svo slæm, að það er alveg óviðunandi, að Alþ. setji lagafyrirmæli, er fyrirskipi, að þessi kjör skuli fara versnandi. Það er ekki hægt að ætlazt til minna af Alþ. en að þau lagafyrirmæli, sem það setur, séu a. m. k.

þannig, að kjör þessarar stéttar haldist nokkurnveginn eins og þau voru, — það þýðir, að lofa verkalýðnum að njóta sama hundaskammtsins, sem hann hafði, og tryggja það, að hann sé ekki gerður ennþá verri.

Ég skal leiðrétta það, sem ég sagði áðan, og geta þess, að samkv. símtali við Hagstofuna er vísitalan fyrir matvöru nú 249, og hækkun frá fyrra ári er þess vegna meiri en 23%, líklega nærri því 27%.

Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um 1. gr. þess frv., sem ég og hv. 4. landsk. berum fram. Ég veit, að hv. þm. geta ekki eftir þeim tölum, sem ég hefi skýrt frá, fært fram mótmæli gegn því, að hér sé farið með sanngjarnt mál. Ég sé ekki, að unnt sé að telja það of mikið, þó að við þm. Sósíalistafl. förum fram á, að verkalýðurinn fái annaðhvort frelsi sitt aftur og megi berjast fyrir því og hindra, að kjör hans fari versnandi, eða fái tryggt með lagasetningu, að hann geti haldið þeim litla skammti, sem hann hefir.

Í öðru lagi eru í frv. nokkur fyrirmæli um það, að ekki megi hækka laun launþega fram yfir það, sem talið er þurfa til sæmilegrar afkomu, sem sé að laun launþega megi ekki hækka meira en svo, að þau samsvari 6 þús. kr. árslaunum miðað við verðlag í janúar–marz 1939, og að ekki sé leyfilegt að hækka laun starfsmanna við fyrirtæki hins opinbera eða einkafyrirtæki, sem hafa hærri árslaun en 8 þús. kr. Slíka menn má telja svo vel setta, að þeir geti fórnað sinni dýrtíðaruppbót fyrir meðbræður sína.

Auk þess er lagt til í frv., að meðalmeðlög og slysa- og dánarbætur, ellilaun og örorkubætur skuli hækka hlutfallslega við aukinn framfærslukostnað.

Ég sé, að nú er komið fram frv. hér á alþ. að tilhlutun hæstv. félmrh., þar sem farið er fram á, að alþýðutryggingar verði hækkaðar, en að vísu ekki nema í sama hlutfalli sem launin hækka samkv. gildandi l. Þar er náttúrlega um sama galla að ræða sem í l. um gengisskráningu. Tryggingarbæturnar verða samkv. l. mjög miklu mínni heldur en því svarar, sem dýrtíðin vex, og þeir, sem tryggingarbótanna eiga að njóta, bera því skarðan hlut frá borði.

Í 2. gr. þessa frv. er lagt til, að áhættuþóknun sjómanna, er sigla um áhættusvæðin, verði undanskilin hinum sérstöku hámarkstakmörkunum þessara l. Þetta teljum við flm. þess ekki nema sanngjarnt.

Ég efast ekki um, að þessu frv., sem við þm. Sósíalístafi. berum fram, muni fylgja eindregnar óskir flestallra verklýðsfélaga á landinu um, að það nái fram að ganga; alveg eins og að á síðasta Alþ. komu fram ýtarleg tilmæli og óskir frá verklýðsfélögunum, að það yrði tekið til greina. Tafalaust munu óskir félaganna og fulltrúa þeirra vera hinar sömu nú sem þá. Ég vonast til þess, að þessu frv-. verði meira sinnt á Alþ. nú heldur en verið hefir undanfarið. Það hefir jafnan verið venja að draga mikilvæg mál fram undir þinglokin, og hespa þau í gegn á einni nóttu, og um sum þeirra hefir þó verið viðurkennt. að þau væru með allra þýðingarmestu málum, sem fyrir Alþ. hafa legið, en slíkt er alveg óhæf meðferð á þýðingarmiklum málum. Ég vil mælast til þess hvað þetta mál snertir, að hv. þm. taki tillit til þess, að það er helmingur þjóðarinnar, sem hér á hlut að máli, og það er Sá helmingur þjóðarinnar, sem nú þegar á við mesta ósanngirni og mest óréttlæti að búa af hálfu þingsins. Það er því ekki nema sanngjörn réttlætiskrafa, að úr þessu verði að einhverju leyti bætt.

Ég vil leyfa mér að mælast til, að þessu frv. verði að 1. umr. lokinni vísað til 2. umr. og allshn.