05.03.1940
Neðri deild: 10. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í C-deild Alþingistíðinda. (2088)

36. mál, búfjársjúkdómar

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti! Það hefir sízt verið vanþörf á því, að einhverntíma kæmi hér á landi löggjöf, er færi í svipaða átt og þetta frv. Það má segja, að þótt brot af löggjöf í þessa átt hafi verið til, þá er hún mjög í molum, og svo mikil vandkvæði á lagaákvæðum í þessu efni, að í einstökum tilfellum hefir orðið að fara eftir erlendum lagaákvæðum. Þetta er því lofsverð tilrann, en þess er ekki að vænta, að fullkomin löggjöf geti komið allt í einu, þar sem þetta er fyrsta tilraunin til þess að fá samfellda löggjöf um varnir gegn innflutningi næmra búfjársjúkdóma og sömuleiðis um varnir í landinu sjálfu.

Ég hefi rekið mig á nokkra galla á þessu frv.; þeir eru ekki stórvægilegir og stafa sennilega af ókunnugleika þeirra, er frv. hafa samið, en ég vildi þó ekki láta hjá líða að benda á þá um leið og frv. verður vísað til n.

Í II. kafla frv., 5. gr. A., eru taldir þeir sjúkdómar, sem þekktir eru hér á landi og búfjáreigendum er skylt að tilkynna, ef við þá verður vart. Ég sem gamall dýralæknir þykist geta dæmt nokkuð um það, að júgurberklar í kúm (Mastitis tubereulosa) hafi aldrei komið fyrir hér á landi, og er því ekki rétt að setja þá í löggjöfinni undir þessa gr. frv.

Í sömu gr., staflið B, eru taldir þeir sjúkdómar, sem þekktir eru hér á landi, en ekki tilkynningarskyldir. Þeirra á meðal eru taldar vöðvatrikinur í svínum (Tricinosis). Hvarvetna erlendis eru lagaákvæði mjög ströng að því er þennan sjúkdóm snertir, enda eru vöðvatrikinur einhver voðalegasti sjúkdómur og mjög hættulegur mönnum. Nú er ekki sagt, að vöðvatríkinur séu í svinum á Íslandi, a. m. k. hefi ég aldrei fundið þær, en hinsvegar virðist mér, að jafnalvarlegur sjúkdómur sé einn af þeim, sem þegar beri að tilkynna, verði hans vart, og eigi hann því tvímælalaust heima undir staflið A.

Þá eru í á. gr. II. taldir sjúkdómar, sem ekki hafa þekkzt hér á landi, og er þar undir tölul. í talinn grafmaurakláði (acarus ovis). Þetta er villa. Jafnvel hver bóndi á að vita, að mannakláðamaurinn, sem er þessarar tegundar, lifir líka á skepnum, t. d. sauðfé og hrossum. Þetta er gamall kunningi okkar og var áður á læknamáli nefndur Saroptes scabiei.

Undir tölul. 10 er talið næst kálfalát og sagt að það hafi ekki þekkzt hér. Ég held, að margt bendi til hins gagnstæða, en þar sem það mál er ekki nægilega rannsakað, er ekki rétt að fullyrða, að það sé óþekkt hér á landi og slá því föstu í lagaákvæði.

Þá er tölul. 12, illkynjuð katharralsýki í nautgripum (Coryza gangrænosa bovina). Þennan sjúkdóm fann ég hér fyrir 26 árum síðan, og hefi ég rekizt á mörg tilfelli af honum, þó ég hafi ekki verið að básúna það í blöðunum. Þessi sjúkdómur á því ekki heima undir þessum lið.

Þessar villur vildi ég benda á, svo að unnt væri að leiðrétta þær í nefnd.

III. kafli frv. fjallar um varnir gegn því, að Infjársjúkdómar berist til landsins. Það má segja, að ákvæði þessi séu góð, og þau eru mjög ströng, et til vill of ströng. En hversu ströng sem þessi lagaákvæði eru, koma þau auðvitað ekki að gagni, nema þau séu haldin. Við höfðum áður enn strangari l., sem lögðu bann við innflutningi á öllum skepnum, en þau voru virt að vettugi. Þannig kannast allir kaupstaðabúar við það, að þegar skip komu að landi, sem höfðu hunda um borð, var þeim alltaf hleypt í land. Árið 1913 voru 5 geitur fluttar frá Noregi til Norðurlands. Þeim var hleypt á land án leyfis. Ég talaði um þetta við viðkomandi lögreglustjóra, og hann þóttist verða uppnæmur fyrir þessu, en geiturnar voru látnar vera til hausts, en þá voru þær fluttar til Noregs aftur. Svona má alltaf fara í kringum lögin. Það, sem þarf, eru svo ströng sektarákvæði og eftirlit, að öruggt sé, að lögin séu haldin.

IV. kafla frv. þykir mér vænt um. Hingað til hefir því verið áfátt í ísl. löggjöf, að búfjáreigendur hafa algerlega verið leystir undan þeirri skyldu að tilkynna um sjúkt búfé, en með þessum kafla eru sett lög um það efni, og er það vel farið.

Ákvæði 10. gr. í HI. kafla þykir mér vafasamt, hvort á að beita, að selja innflutt dýr í einangrun á eyju í 3–5 ár. Ég held, að þetta ákvæði sé svo torvelt, að það verði ekki haldið. Ef dýrin eru flutt inn til kynbóta, eru menn svo bráðlátir að fá dýrin til undaneldis, að svo langri einangrun verður tæplega komið við. Þannig hefir þetta verið að því er refaræktina snertir. Maður fær tilkynningu um það eftir dúk og disk frá stjórnarráðinu, að leyfi hafi verið veitt fyrir innflutningi kynbótarefanna, og þá eru dýrin komin í land. Þau hafa kannske verið skoðuð hér í Reykjavík af dýralækni — um það er mér ekki kunnugt —, en ég hefi enga fyrirskipun fengið um að skoða þau dýr, sem til norðlenzkra hafna hafa verið flutt. Aðeins tilkynningu um innflutningsleyfi. — Þannig hefir framkvæmd laganna verið.