06.03.1940
Neðri deild: 11. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í C-deild Alþingistíðinda. (2093)

44. mál, lestrarfélög og kennslukvikmyndir

Flm. (Jón Ívarsson):

Þetta frv. fer fram á nokkrar breyt. á l. um lestrarfélög og kennslukvikmyndir. Það eru þó aðallega tvær efnisbreyt., sem frv. gerir ráð fyrir.

Í fyrsta lagi eiga lestrarfélög, sem starfa í hreppum, þar sem eru sýslubókasöfn, að geta komið undir ákvæði l. um styrk, og í öðru lagi er gert ráð fyrir því í frv., að hreppsbókasöfn verði styrkhæf eins og lestrarfélög.

Á nokkrum stöðum á landinu eru starfrækt hreppsbókasöfn, án þess að lestrarfélög standi að þeim. Það er í sjálfu sér enginn munur á starfsemi þeirra bókasafna og hinna, sem lestrarfélög standa að, annar en sá, að í öðru tilfellinu eru það nokkrir menn, sem að bókasafninu standa, en í hinu tilfellinu er það hreppurinn. Og hreppsbókasöfn geta verið fyllilega styrkhæf líka á þeim stöðum, þar sem sýslubókasöfn eru. En eftir h eins og þau eru, er a. m. k. litið þannig á af fræðslumálastjórninni, að hreppsbókasöfn og lestrarfélög í sveitum og kauptúnum geti ekki verið styrkhæf, ef þau starfa á þeim stöðum, þar sem sýslubókasafn er. Þetta á sér að vísu ekki víða stað á landinu, en er þó á nokkrum stöðum, og hefir því virzt rétt að gera þessar breyt. á l.

Því er svo háttað, að í sýslubókasöfn eru yfirleitt keyptar aðrar bækur heldur en í hreppsbókasöfn eða lestrarfélög.

Aðrar breyt. á l., sem í frv. felast, eru meira formsatriði, sem ég hefi talið rétt að gera breyt. á um leið. Ég hefi um það efni borið mig saman við skrifstofu fræðslumálastjóra og fengið bendingar um það, sem henni þykir máli skipta og hún álítur að þurfi að breyta, t. d. að ekki sé nema eitt lestrarfélag eða bókasafn í hverjum hreppi, sem styrks nýtur, og að fræðslumálastjórnin geti sett reglur slíkum lestrarfélögum og hreppsbókasöfnum um starfsemi þeirra.

Ennfremur hefi ég tekið upp í eina gr. frv. þau skilyrði, sem þurfa að vera fyrir því, að félög þessi geti orðið styrks aðnjótandi. Og einnig eru tekin í frv. fleiri skilyrði fyrir styrkveitingu en eru í l. nú.

Ákvæðin um kennslukvikmyndir eru látin halda sér.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta frv., en óska, að því verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr. og hv. menntmn.