19.04.1940
Neðri deild: 45. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í C-deild Alþingistíðinda. (2100)

45. mál, tekjuskattur og eignarskattur af vaxtafé

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti ! Fyrir alllöngu síðan bar ég fram þá ósk við hæstv. forseta, að hann hlutaðist til um, að tekið yrði á dagskrá frv. okkar hv. 2. þm. Skagf. um innheimtu tekjuskatts og eignarskatts af vaxtafé. Frumv. var flutt snemma þings og fór til nefndar. Nú er langt síðan tveir af nm. hafa skilað áliti, og þegar ég bar fram ósk mína við hæstv. forseta, hét hann að ræða um það við hina nefndarmennina, að þeir skiluðu áliti sínu. Þar sem árangur sést ekki enn, ítreka ég þá ósk, að frumv. verði tekið á dagskrá, helzt á næsta fundi deildarinnar.