11.03.1940
Neðri deild: 14. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í C-deild Alþingistíðinda. (2104)

53. mál, eyðing svartbaks

Pálmi Hannesson:

Ég vil þegar við þessa umr. leyfa mér að benda á nokkur atriði í sambandi við þetta frv.

Í fyrsta lagi vil ég benda á það, að það er hættuleg braut að leggja út á, að ætla sér að útrýma vissum tegundum lifandi dýra eða plantna algerlega. Þetta hefir verið gert víða erlendis, og það .eru jafnmörg dæmi þess, að [tað hefir orðið til skaða.

Í öðru lagi er hér blandað saman tveim tegundum fugla, sem stendur ólíkt á um: Veiðibjöllu, sem er vitanlega mikill vargur, og hrafni. sem er miklu minni skaðræðisfugl, og svo miklu minni, að mig furðar á því, að ekki skuli vera litið í jafnmikilli náð til fiskianda, einkum þar sem hv. flm. taldi, að frv. væri flutt að nokkru leyti vegna veiðiskapar í ám. Ég tel óverjandi að blanda þessum tveimur tegundum saman. Það gæti verið verjandi að setja af stað útrýmingarherferð gegn veiðibjöllunni, en ég get ekki séð, að það geti náð til hrafnsins.

Í 3. lagi virðist frv. ófullnægjandi. Það er engin trygging fyrir því, að þessum vargi verði sálgað, þótt lagt sé fé til höfuðs honum. Þetta virðist eiga að vera atvinnubótavinna fyrir nokkrar skyttur. Þeir eiga að fá krónu fyrir hvern fugl, sem þeir geta sálgað. En það skyldi þó aldrei vera, að þessir sömu menn hefðu það til að jóga nytjafuglum um leið. Til þess að ná þeim árangri, sem gagn er að í útrýmingu veiðibjöllunnar, verður að ganga að því með ráðnum hug í varpheimkynnum hennar, að útrýnum þeim sambýlum, sem þar eru. Þyrfti þá vitanlega fyrst að fá hugmynd um helztu varpstaði hennar og ganga svo að því að útrýma þeim varpstöðum, sem næst lægju æðarvarpslöndum.

Ég er þess vegna sama sinnis og ég var á síðasta þingi, að ég álit, að það eigi að bíða með að gera ráðstafanir til að auka æðarvarpið þangað til fenginn er með rannsókn úrskurður um það, hvaða ráðum skuli beita til þess. Og það verða þegar á komandi sumri hafnar rannsóknir í þessa átt, sem gætu gefið þær niðurstöður fyrir næsta þing, sem byggja mætti á skynsamlegar ráðstafanir til að auka æðarvarpið í landinu.