11.03.1940
Neðri deild: 14. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í C-deild Alþingistíðinda. (2108)

53. mál, eyðing svartbaks

*Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Út af því, sem hv. þm. Ak. sagði, vil ég aðeins taka það fram, að hann virðist vera mjög ókunnugur þessum málum. Hann reyndi að andmæla ræðu minni, en virðist vera mjög tilfinnanlega óvandvirkur í því, eins og t. d. er hann blandaði saman Þingvallavatni og Mývatni, og ruglaði saman fuglum, er verpa í varplöndum, og öðrum fuglum, og síðan vill hann skilja þetta svo, að hér sé um aðra fugla að ræða en í frv. eru taldir. Hv. þm. Ak. sagði ýmsar fjarstæður í ræðu sinni, eins og t. d. þá, að ég hefði sagt, að veiðibjallan væri búin að eyða veiði í öllum ám hér á landi. Slíkt dettur okkur ekki í hug. Ég sagði, að það væru einkum smáár, sem veiði hefði minnkað í af þessum sökum, en þetta fiskirán kæmi ekki að mjög miklu ógagni í stórám.

Um ræðu hv. l. þm. Skagf. skal ég ekki fara mörgum orðum. Ég veit, að hann er gersamlega ráðþrota í þessu máli, sem er engu að síður alvarlegt mál, eins og þegar hann fer að tala um náttúruval og að ég hafi flutt ræðu um náttúruheimspeki og að ég ætti að skrifa doktorsritgerð um þetta efni. Ég veit ekki, hvað þýðir að fara út í þetta, þegar rætt er um alvarlegt mál.

Þá fór hann að tala um, að náttúran sjálf héldi öllu í hinu skynsamlegasta og bezta jafnvægi. En nú er vitanlegt, að heilum plöntuættum hefir verið útrýmt af öðrum sterkari, sem hafa verið betur hæfar til að vaxa og þroskast við þau lífsgæði, sem þar hafa verið. Fræ hafa borizt til landa, þar sem ekki uxu skógar áður. og gerdrepið þann gróðurs er þar var áður. Náttúran heldur ekki við öðru jafnvægi en því, að hinn veikari verður að lúta í lægra haldi fyrir þeim sterkari. En hinar veikbyggðari tegundir jurta og dýra eru oft nytsamari fyrir mennina en hinar, og er því eðlilegt, að menn vilji vernda það, sem er þeim til mestra nytja, því að gagnsemin fer ekki alltaf eftir því, hvor tegundin sýnist sterkari. Sama máli er að gegna um dýraríkið. Einstök dýr hafa útrýmt heilum dýraflokkum aðeins vegna styrkleika sins og þess, að þau voru betur útbúin frá náttúrunnar hendi til þess að yfirvinna aðrar tegundir. Þar kom ekki heldur neitt jafnvægislögmál til greina.

Hv. 1. þm. Skagf. sagði (ég veit ekki, hvort hann er viðstaddur, en mér stendur á sama um það), að það væri alveg nýtt fyrir vísindin, að hrafnarnir kæmu í stórflokkum yfir varplöndin. Ég er hræddur um, að það sé eitthvað bogið við náttúruvísindi þessa hv. þm. Það fer nú svo um alla þá menn, sem ræða og rita un•. hluti án þess að kynnast lífinu sjálfu, að þeir lenda á villigötum. Þessi hv. þm. hefir aldrei verið í varplandi og aldrei veitt því athygli, en þó leyfir hann sér að dæma um hluti, sem hann veit ekkert um. Ég hefi verið í varplandi viku eftir viku og séð þessar aðfarir. Ég þarf ekki svona vísindi, ég hefi lifið sjálft til að vísa mér leið, en hann hefir sinn heilaspuna.

Þá kom hv. l. þm. Skagf. með þá speki, að varpeigendur gætu sjálfir drepið þessar skepnur. Varplöndin eru sumstaðar með margra mílna millibili, og allar aðstæður eru þess vegna í margra mílna fjarlægð. Það vill nú svo til, að þessar skepnur eru fljótar að bera sig yfir, og þær leita sér að fæðu oft mjög langt frá sínum dvalarstað, og það er alls ekki á færi varpeigenda að útrýma þeim. Hvernig á það að geta komið til mála, að varpeigendur eigi að fara margra mílna leið á sjó og landi til þess að eyða hröfnum, sem verpa í björgum í öðrum sýslum, en gera skaða í varplöndum þeirra? Það er ekki nema eðlilegt, þó að fáir hrafnar flækist fyrir fótum hv. þm. Ak. og hv. 1. þm. Skagf. Það er alveg eðlilegt, að hrafnarnir sæki aðallega þangað, sem björgin er mest, þ. e. til varplandanna. Ég skal fúslega játa það, að ég hefi ekki tekið þetta mál sem mannúðarmál, enda þótt það væri fullkomlega þess vert. Það er fullkomlega þess vert að vernda lítilmagnann fyrir jafnægilegri ágengni sem þeirri, er fuglar í varplöndunum verða fyrir af völdum svartbaks og hrafns. Það er aðalatriðið, að vernda þau náttúrugæði, sem eru til á þessu landi og má hafa miklar nytjar af. Hitt er aukaatriði, en mjög mikilsvert eigi að siður. Ég vænti þess, að hv. þm. muni líta á þetta hvorttveggja og muni ekki raska þeirri ákvörðun, sem þeir hafa tekið, heldur greiða fyrir því, að þessu nauðsynjamáli verði nú eins og áður vísað til 2. umr.