19.03.1940
Neðri deild: 21. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í C-deild Alþingistíðinda. (2114)

53. mál, eyðing svartbaks

*Pétur Ottesen:

Ég verð að taka undir það með hv. síðasta ræðumanni, að ég hefði betur fellt mig við, að þessi ráðstöfun væri látin gilda gagnvart hvorumtveggja þeirra ránfugla sem um getur í frv., því að það er erfitt að gera upp á milli þess, hvor þeirra vinnur meira tjón. Hitt getur verið, að fjöldi svartbaks sé meiri og stafi því meira tjón í heild af honum en hrafninum. Ég hefði því heldur kosið, að frv. hefði haldizt í sínu upprunalega formi, og einnig af þeim ástæðum, að brtt. gerir ráð fyrir að fella niður 2. gr. þess, en þar er gert ráð fyrir, að kostnaður við eyðingu þessara ránfugla skiptist á þrjá aðila aðra en ríkissjóð, þ. e. sýslu, hrepp og þá, sem æðardúnstekjur hafa. Skv. þeirri breyt., sem n. vill gera á frv., fellur þessi grein niður, og er þá um leið allri verðlaunaskyldunni skellt á ríkissjóð. Að því er snertir varpeigendur, sérstaklega þá, sem hafa dúntekjum er það mjög þýðingarmikið, að þessum vargfugli sé fækkað, og þar sem dúntekjan er einhver arðvænlegasti atvinnuvegur, sem rekinn er í þessu landi, má það harla undarlegt heita, að varpeigendur skuli algerlega fríaðir við að bera eitthvað af þeim kostnaði, sem af eyðingin þessa vargfugla leiðir. Í þess stað á að skella öllum kostnaðinum á ríkissjóð, og algerlega óviðkomandi menn eiga að taka á sig þann þunga, sem af því leiðir að greiða 1 kr. fyrir dráp hvers fugls. Mér virðist a. m. k. athugunarvert, hvort eigi að ganga inn á þessa braut.

Þetta er nú 2. umr. þessa máls. Ég vil því fara fram á það við n., að hún taki aftur þá brtt. sína að fella niður ákvæði 2. gr. og athugi fyrir 3. umr., hvort ekki sé unnt að finna annan grundvöll fyrir skiptingu kostnaðarins.