19.03.1940
Neðri deild: 21. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í C-deild Alþingistíðinda. (2125)

53. mál, eyðing svartbaks

Frsm. (Bergur Jónsson):

Mér finnst bara ekkert liggja á að koma með svona brtt. Ef menn vilja hafa 2. gr. svona, er ekkert við það að athuga. En mér virtist sjálfsagt að fá skorið úr aðalatriðunum fyrst. Þar sem nál. á þskj. 154 byggist á samkomulagi milli nefndarhlutanna um þau atriði, sem þar greinir, og gert í því trausti, að samkomulag náist síðar um önnur atriði málsins, tel ég mjög óheppilegt að þurfa að deila um einstök atriði 2. gr. við þessa umr. Ég veit ekki betur en hv. þm. V.-Sk. sé andstæðingur málsins og beri þessa brtt. fram til þess að verða meinsmaður frv. Ég vil skora á þá, sem með málinu voru á síðasta þingi og hafa vonandi ekki breytt afstöðu sinni, að láta ekkert slíkt verða málinu til falls.