19.03.1940
Neðri deild: 21. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í C-deild Alþingistíðinda. (2127)

53. mál, eyðing svartbaks

*Sigurðar Kristjánsson:

Herra forseti! Ég bjóst ekki við því í upphafi umr., að nein ákvæði 2. gr. mundu koma hér til athugunar, því að mér skildist einskonar samkomulag um það í n. að geyma það mál til 3. umr. Annars hefði ég tekið strax fram eitt atriði. Mér hefir verið bent á, að orð 2. gr. „er æðardúnstekjur hafa“ geti verið tvíræð, þegar svo stendur á, að varpjarðir eru í leiguábúð, en afgjaldið goldið í dún, eins og títt er um slíkar jarðir. Þá gæti skapazt ágreiningur um það, hvor greiða eigi ríkissjóði gjaldið fyrir svartbakseyðingu, leigjandi eða eigandi. En ég tel, að æðardúnstekjur hafi sá, sem dúninn fær, hvort sem það er jarðeigandinn eða ábúandinn, og greiðir þá hinn síðarnefndi aðeins af þeim hluta, sem hann kann að halda eftir af dúninum sjálfur.

Mér virðist það í rauninni koma í sama stað niður, hvort atkvgr. um efni 2. gr. er frestað nú eða ekki frestað, en vitanlega fylgi ég því sem annar flm. frv., að hún verði ekki felld niður. Enda finnst mér það að öllu leyti hyggilegast, að skipta kostnaðinum milli aðila. Ég get ekki fallizt á, að sýslu- eða hreppsfélagi komi þetta lítið við, því að viða er varp að leggjast niður vegna ágangs vargfugla, og þá geta bæði hreppar og sýslur greitt nokkuð til þess að skapa ný atvinnurekstrarskilyrði. Þar sem hv. frsm. hefir nú talað eins oft og honum er leyfilegt, vildi ég taka undir það, að ekki er hægt að vita, hvernig málin snúast, ef felld er brtt., sem samkomulag er orðið um í allshn. Ég held það sé bezt að sinni að samþ. allar brtt. hennar, því að það er aldrei vandalaust að komast af við vandræðamenn, eins og þá, sem veitt hafa andstöðu þessu frv.; það er alveg sýnilegt, þótt ofsann hafi lægt í bili, að það má engu muna með þá.