19.03.1940
Neðri deild: 21. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í C-deild Alþingistíðinda. (2128)

53. mál, eyðing svartbaks

Sveinbjörn Högnason:

Ég ætla ekki að svara þessum svigurmælum hv. þm., því að ekki er orðastaður eigandi við menn, sem þannig kastast milli öfga sinna og endileysu, eins og þegar hann lýsti, hvernig hrafninn eyddi heilar sveitir á Vestfjörðum. — Ef nokkuð getur eyðilagt mál, er það framkoma manna eins og þessa hv. flm. frv. — Aðalatriði málsins eru þessi: Hvaða fuglum á að útrýma, og hvar á að taka fé til þess ? Í allshn. tókst samkomulag um þessi atriði, en á allt annan hátt en frv. gerir ráð fyrir. Nefndin vill leggja fé til höfuðs svartbaknum einum og ætlar ríkissjóði að greiða það einum. Síðara atriðið vildu menn þó yfirleitt heldur hafa á annan veg, en kom ekki saman um hvernig. Fyrir mitt leyti get ég aldrei fallizt á, að sveitarfélögin greiði þetta, svo dreifð sem varplöndin eru, og svartbakur yrði drepinn engu mínna á varplausum stöðum. Og undir flestum kringumstæðum yrði það óframkvæmanlegt. Ég skal benda á það, að maður, sem færi héðan austur til Vikur og skyti svartbak, hvar sem hann sæi hann á leiðinni, kæmi kannske með 2–3 hundruð til sýslumanns Skaftfellinga og ætti að tilgreina um hvern einasta fugl, hvar hann væri skotinn í þeim 12–14 hreppum, sem yfir var farið. Ég efast um, að allir séu svo kunnugir, að þeir þekki hvarvetna hreppamörkin. Ákvæðið er bæði ósanngjarnt og ekki hægt að fylgja því. Ef þetta stæði í frv., væri ég móti því í heild. Hinsvegar tel ég sjálfsagt, að þeir, sem hafa dúntekjur, eigi að greiða hluta af kostnaðinum, og mundi fylgja brtt. í þá átt síðar. En ég fylgi alls ekki 2. gr., meðan í henni er ákvæði, sem ég tel bæði heimskulegt og ranglátt.