11.03.1940
Neðri deild: 14. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í C-deild Alþingistíðinda. (2136)

57. mál, jarðræktarlög

Flm. (Jón Ívarsson):

Frv. þetta er shlj. frv., sem borið var fram á síðasta þingi, en varð eigi útrætt, og fjallar um það, að gera geymsluhús fyrir kartöflur styrkhæf. Ástæðurnar til þess eru teknar fram í grg. þeirri, sem fylgir frv., en ég vil þó bæta því við, að það er viðurkennt og hefir komið fram, að rétt sé að fara þessa leið, að gera geymsluhús fyrir kartöflur styrkhæf, a. m. k. eins og nú er ástatt um aukning kartöfluræktar frá því, sem verið hefir. Þegar kartöfluframleiðslan er orðin eins mikil og hún var hér á landi á síðastl. ári, verður að reikna með því, að það þurfi að geyma birgðir af kartöflum í marga mánuði fram á vor eða sumar, og er þá enn meiri nauðsyn en ella, að geymsluhúsin séu í því lagi, að óhætt sé að geyma í þeim, svo að kartöflurnar séu góð vara, þótt komið sé fram á sumar; því að ef geymsluhúsin eru ekki í lagi, er mjög hætt við, að þessi dýrmæta vara verði að meira eða minna leyti ónýt, þegar komið er fram á vor, og væri með því miklu fé á glæ kastað, þar eð þessi atvinnugrein er nú orðin mjög kostnaðarsöm vegna hins háa verðs á áburðinum.

Ég vil vænta þess, að hv. deild vilji vísa þessu máli til 2. umr. og landbn., og óska ég þess, að sú n. vilji afgr. málið sem fyrst.