18.03.1940
Neðri deild: 20. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í C-deild Alþingistíðinda. (2150)

71. mál, raforkuveitusjóður

Flm. (Thor Thors):

Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta frv., því að þetta mál hefir verið svo mikið rætt hér á þinginu almennt, að það er ástæðulaust að fara um það mörgum orðum. Við flm. þessa frv. erum því eindregið fylgjandi, að af hendi ríkisvaldsins séu gerðar ráðstafanir til þess að tryggja það, að hægt sé að veita rafmagninu sem víðast um byggðir landsins. En við erum ósammála hv. framsóknarmönnum, sem flytja sérstakt frv. um þetta efni. að því leyti, að við viljum ekki, að lagður sé á nýr neyzluskattur á rafmagnsnotkun landsmanna. Við teljum nægilega séð fyrir þessum þörfum með því að ákveða það, að ríkissjóður einn leggi til framlag hvert ár. Till. okkar fer fram á, að ríkissjóður leggi fram 50 þús. kr. árlega á næstu 10 árum. Við vitum, að það muni verða nokkuð erfitt um framkvæmdir í þessum málum nú á næstu árum a. m. k. ef styrjöldin stendur yfir næstu ár. En við viljum nota þetta tímabil til þess að koma upp sjóði, sem síðar yrði fær um að fullnægja þessari þörf og risa undir framkvæmdunum.

Ég vil svo vísa til grg. frv., en aðeins vænta þess, að sá áhugi, sem komið hefir fram í hv. d. fyrir þessu máli, megi lýsa sér á þann veg, að þetta frv. megi ná samþykki hv. d.