28.03.1940
Neðri deild: 24. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í C-deild Alþingistíðinda. (2156)

71. mál, raforkuveitusjóður

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti! Það hefir orðið samkomulag um það í fjhn. að mæla með, að frv. þetta nái fram að ganga. Nefndin hefir gert við það tvær verulegar breytingar. Önnur er að bæta inn í það nýrri grein um það, að raforkuveitur, sem hafa vatnsafl til orkuframleiðslu og 100 kw. afl eða meira, skuli, eftir að þær hafa starfað 3 ár eða lengur, greiða nokkurt gjald í raforkuveitusjóð, og fer síðan gjaldið stighækkandi til 13 ára aldurs. Það er miðað við, að afkoma þeirra fyrirtækja batni, þegar liður frá stofnun þeirra og skuldir minnka. Um þessa brtt. erum við fjórir nm. alveg sammála, en hv. þm. V.- Ísf. hefir skrifað undir með fyrirvara, sem hann mun gera grein fyrir við umr.

Hin brtt. er um að orða núv. 3. gr. þannig, að Búnaðarbankinn skuli hafa ákvarðanir um lán úr rafveitulánasjóði, annast stjórn hans og rekstur, fyrir þóknun, sem ráðh. ákveður með samkomulagi við stjórn bankans. En í frv. er gert ráð fyrir, að atvmrh. ábyrgist stjórn sjóðsins og feli hana Búnaðarbankanum. Ég hefi ekki talið þörf þessarar brtt., en þar sem niðurstaðan verður hin sama hvort sem heldur er, — Búnaðarbankinn fer með framkvæmdina, — þá hefi ég ekki séð ástæðu til að kljúfa nefndina út af því.

Ég vil ekki fjölyrða um málið, óska því góðs gengis í deildinni og framgangs áður en þingi slitur.