28.03.1940
Neðri deild: 24. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í C-deild Alþingistíðinda. (2160)

71. mál, raforkuveitusjóður

Thor Thors:

Mér ber víst sem 1. flm. þessa máls að þakka hv. fjhn., að hún hefir orðið sammála um að mæla með, að frv. gangi fram. Aðalefni frv. var, að ríkissjóður ætti að leggja fram fé til að koma á fót raforkuveitusjóði. Nú er önnur fjáröflunarleið orðin engu minni þáttur í frv. Ég hefði heldur kosið, að hægt hefði verið að komast hjá þessu skattgjaldi raforkustöðvanna og afla sjóðnum annara tekna, helzt beint úr ríkissjóði. En ég sætti mig við afgreiðslu hv. fjhn., þar sem gjaldinu er bæði í hóf stillt og raforkustöðvarnar verða skattfrjálsar fyrstu og erfiðustu árin.

Við síðari brtt. fjhn. get ég ekki fellt mig, þótt aukaatriði sé í málinu. Ég tel miklu eðlilegra, eins og ákveðið var í frv. okkar, að skilja ekki yfirstjórn þessara mála frá hinu almenna framkvæmdarvaldi í landinu og yfirstjórn atvinnumálanna, auk þess sem rétt er að minna á, að aðaltekjur sjóðsins koma beint frá hinu opinbera, bæði sem framlag og skattgjald, og væri óeðlilegt, ef því fylgdi ekki beint íhlutunarvald, án nokkurra krókaleiða gegnum sérstaka peningastofnun í landinu. — Ef við gerum ráð fyrir því, eins og í frv., að yfirstjórnin sé hjá ráðh., en starfrækslan í höndum bankans, hygg ég, að allir aðilar megi vel við una. Ég vil því skora á hv. þdm. að fella þessa brtt. En að öðru leyti er ég fylgjandi frv. með brtt. nefndarinnar.