28.03.1940
Neðri deild: 24. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í C-deild Alþingistíðinda. (2171)

71. mál, raforkuveitusjóður

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti! Mér er ekki fullkomlega ljóst, hvað meint er í b-lið fyrri brtt. hv. fjhn. á þskj. 217. Þar segir svo: „Næstu 5 árin greiðist 2 kr. á ári fyrir hvert kílówatt í málraun rafals í hverri vélasamstæðu.“ Ég veit ekki, hvort heldur þetta þýðir, að það eigi að miða við þá kílówatt-tölu sem fæst til hagnýtingar frá stöðinni, eða þá kílówatt-tölu. sem stöðin framleiðir árlega, og tel ég æskilegt, að hv. fjhn. vildi upplýsa þetta. Sessunautur minn segir, að þetta þýði það, sem rafstöðin getur framleitt árlega. En ég býst við, að þetta skipti nokkru máli, því á þessu mun vera verulegur munur hjá flestum stöðvum.

Ég get sagt það um fyrri brtt. á þskj. 217, að ég er henni andvígur og get tekið undir með þeim hv. þm., sem hafa talið, að eins og hag flestra rafstöðva landsins er nú komið, þá sé ekki gerlegt að leggja skatt á þær, sízt af öllu svipað því eins mikinn og hér er gert. Það er auðvelt að segja, eins og hv. þm. v.-Húnv. sagði, að ekki sé annað en að hækka verðið á rafmagninu og þá borgi þeir, sem kaupa rafmagnið og nota það, en það er auðvitað, að alltaf verður það hlutfall á milli verðs á rafmagni og þess, hve mikið er notað af því, sem ekki er hægt að breyta, ef hagfelld niðurstaða á að verða á rekstrinum. Ég get ekki neitað því, að mér þykir langt seilzt í þessu efni, að fyrirtæki, stór sem smá, úti um land, sem engrar aðstoðar hafa notið frá hinu opinbera, skuli vera skattlögð í þessu skyni. Ef slíkar aðferðir væru notaðar yfirleitt, mætti finna ný og ný fyrirtæki, sem mætti skattleggja, því alltaf má finna óunnar framkvæmdir til að réttlæta skattana.

Þar sem meiri hl. hv. fjhn. virðist vera sammála um þessa till., þykir mér ekki ólíklegt, að hún eigi það miklu fylgi að fagna í hv. d., að hún verði samþ., og ef slíkt á að ske, þá vil ég gera tilraun til þess að draga úr þessum álögum og leggja skrifl. brtt. fyrir hæstv. forseta til viðbótar við þessar brtt. Hún er í fyrsta lagi við a-lið l. gr., að í stað 3 ár komi 5 ár, svo að stöðvarnar séu gjaldfrjálsar fyrstu 5 árin, en þau eru erfiðust vegna þess, að þá er notkun rafmagnsins ekki komin upp í það, sem teljast verður nægilega mikið, og þá erfið aðstaða fyrir rafstöðvar, sem greiða þurfa ýmsar lausaskuldir. — Í öðru lagi er lagt til, að e-liður orðist svo: Úr því greiðist á sama hátt 4 kr. á ári fyrir hvert kílówatt. Þá verður gjaldið komið í hámark eftir 5 ár, eða 4 kr. á kílówatt. en svo greiðist aldrei hærra gjald. Þessa till. kem ég með af því, að ég vil reyna að minnka þessar óeðlilegu skattaálögur, svo að ef brtt. hv. fjhn. ná fram að ganga, þá verði þessi brtt. samþ., en ég er ekki frekar bundinn við að greiða frv. atkv. í heild en mér þykir ástæða til.

Ennfremur þætti mér vænt um, að upplýsingar kæmu um það frá hv. fjhn., hvort það sé réttur skilningur hjá sessunaut mínum, að miðað sé við kilówatt-tölu þá, sem stöðin framleiðir, en ekki það, sem hagnýtt er á hverjum tíma. Einnig hefi ég saknað þess, að hafa ekki heyrt neitt um það frá hæstv. fjmrh., hvort hann telur tiltækilegt á þessum tímum, að ríkissjóður leggi raforkuveitusjóðnum 50 þús. kr. á ári í næstu 10 ár. Er erfitt að stofna til slíkrar sjóðmyndunar nú, þótt til mjög nauðsynlegra hluta sé, og baka ríkissjóði þessi útgjöld í 10 ár, á sama tíma og verður að fresta fjölmörgum framkvæmdum og lækka fjárl.

Vil ég hér með leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa skrifl. brtt. mína.