28.03.1940
Neðri deild: 24. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í C-deild Alþingistíðinda. (2174)

71. mál, raforkuveitusjóður

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Í tilefni af fyrirspurn hv. þm. Seyðf. vil ég segja, að það liggur í augum uppi, að það muni fara eftir atvikum, hvort ríkissjóður getur lagt þetta af mörkum næstu ár. Ég verð að segja, að ekki er stór hætta á ferðum, þótt sett séu svona l., þar sem ríkið er eini aðilinn, sem gengur eftir, að framlagið verði innt af hendi, ef örðugleikar verða á því. Ég er sammála þeim efasemdum, sem komu fram í ræðu hv. þm. um það, að mögulegt verði að greiða þetta næstu ár, en það er ekki það eina, sem mér finnst athugavert í þessu sambandi, heldur finnast mér allar þær tekjuöflunarleiðir, sem ræddar hafa verið í þessu sambandi, vera ákaflega vafasamar, einnig þetta, að leggja skatt á þær rafveitur, sem lán hafa verið tekin til. Ég er hræddur um, að það kunni að valda nokkrum óþægindum í sambandi við lántökur til slíkra framkvæmda„ sem hér um ræðir, ef það verður þá ekki beinlínis talið óheimilt samkvæmt gerðum samningum. Það einasta er, að lánveitanda, sem hefir ríkisábyrgð fyrir lánum, má einu gilda, hvaða kvaðir ríkið leggur á þessi fyrirtæki. Ef þessi fyrirtæki standa ekki í skilum með greiðslur á lánum sinum, þá verður ríkið að hlaupa undir bagga með þeim, eins og stundum hefir komið fyrir og áður hefir verið rætt af hv. 6. þm. Reykv. Ég fyrir mitt leyti tel það mjög hæpna leið að afla fjár til slíkra framkvæmda með sköttum á þessi fyrirtæki, fyrr en þau hafa uppfyllt skuldbindingar sínar út á við.