28.03.1940
Neðri deild: 24. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í C-deild Alþingistíðinda. (2176)

71. mál, raforkuveitusjóður

Jón Ívarsson:

Herra forseti! Það er komið æðimikið fram af brtt. við þetta frv., og m. a. margar skrifl. brtt. Og þó að það sé kannske að bera í bakkafullan lækinn að bæta við einni slíkri, vil ég samt leyfa mér að koma fram með eina skrifl. brtt. við brtt., sem fyrir liggur frá fjhn. á þskj. 217. Ég hefi orðað þessa brtt. þannig, að á eftir orðunum í 1. málsgr. „vatnsafl til orkuframleiðslu“ komi: og njóta ábyrgðar ríkissjóðs eða annars fjárhagsstuðnings ríkisins, skulu o. s. frv.

Það, sem liggur til grundvallar þessari brtt., er, að ég sé ekki annað en að full ástæða sé til að gera mun á þeim rafveitum, sem reistar eru með stuðningi ríkisins, og hinum, sem alls ekki fá neinn stuðning ríkisins. Á þessu tvennu er mikill munur, og sé ég engin rök fyrir því, að það eigi að skattleggja rafveitur, sem ekki njóta opinberrar aðstoðar, heldur hefir verið komið upp af aðilum af eigin rammleik án slíkrar aðstoðar, til þess svo að hjálpa öðrum, sem reistar eru með aðstoð eða fyrir atbeina ríkisins.

Mér virðist mjög æskilegt, að hv. fjhn. vildi taka þetta mál til nýrrar athugunar, eftir að þær mörgu skrifl. brtt. eru komnar fram, fyrir 3. umr. Og n. þyrfti að fá nokkurt tóm til þessarar athugunar.

Vil ég svo leyfa mér að afhenda hæstv. forseta brtt. mína.