27.03.1940
Neðri deild: 23. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í C-deild Alþingistíðinda. (2215)

81. mál, skattgreiðsla útgerðarfyrirtækja

*Sigurður Kristjánsson:

Ég veitti því ekki athygli, að hv. flm. frv. þessa óskaði eftir, að því yrði vísað til fjhn. Þetta tel ég ekki rétt, því að málið á hvergi heima nema í sjútvn., til hennar hefir og öllum slíkum málum verið vísað. Þetta vænti ég að hv. flm. geti fallizt á.

Það er vitanlegt, að Alþ. leit svo á, þegar þau l. voru sett, sem farið er fram á að afnema á þskj. 167, að til stórkostlegra vandræða horfði með atvinnulífið í landinu, ef útgerðin kæmist algerlega á kné og hryndi í rústir. Það var sýnilegt, að við sjálft lá, að útgerðin stöðvaðist og það myndi valda vandræðum meðal almennings.

Það er áreiðanlegt, að þetta frv. á helzt að fara til þeirrar n, sem fjallar um málefni þessa atvinnurekstrar. Eins og ég sagði í upphafi, þá tel ég í raun og veru ekki nauðsyn á að ræða þetta mál mikið áður en það fer til n. Ég er þeirrar skoðunar, að hversu fjarstæð sem frv. kunna að vera, eigi þó að unna þeim og flm. þeirra þess að vísa þeim til n., og þá er rétt, að málið sé athugað af þeirri n., er fjallar mest um það svið. Ég er ekki að mæla móti því, að málið fari til n., né heldur móti því, að n. afgr. það eins og önnur mál, ég vil bara mælast til, að hv. þm. sansist á það, að málið á að fá meðferð hjá þeirri n., sem á að fjalla um sjávarútveginn.

Annars get ég sagt út af þeim ummælum, að Sósíalisfafl. hefði verið eini flokkurinn, sem var móti þessu máli um skattfrelsi sjávarútvegsins meðan hann væri að komast úr kútnum, að það eru engin rök fyrir því, að þetta sé ekki mikilsvert mál. Það er vitað, að sá flokkur hefir það markmið að koma atvinnulífi landsmanna í rústir. Það er eðlilegt, af því að sú eymd meðal fólksins, sem hlýtur að fylgja hruni atvinnuveganna, er það eina agn, sem sá flokkur getur fiskað á. Ég geri ráð fyrir, að undanfarið muni þeir menn, er fyrir þeim flokki eru, hafa gripið fegins hendi hvert tækifæri til þess að skapa slíkt eymdarástand eða magna það. Hitt vil ég efast um, að það sé tilgangur hv. flm. þessa frv. Ég skal ekkert segja um, hvað fyrir honum vakir. Mér finnst það illúðarkenndara en ég hefði viljað vænta af honum. Hann hefir, sem kunnugt er, haft mikil kynni af atvinnulífi og atvinnurekstri, og mun honum sjálfsagt vera skiljanlegt, að vel stæður atvinnurekstur er undirstaðan undir góðri afkomu, ekki aðeins verkamanna, heldur alls almennings í landinu. En út í þessar almennu hugleiðingar skal ég ekki fara frekar. Ég vil þó andmæla því sem hinni mestu fjarstæðu, að togarafélögin hafi grætt upp undir 6 millj. kr. nú í vetur. Það hefir verið reiknað út af þeim mönnum, sem eru nákunnugir kostnaðinum við þessa útgerð, að togararnir muni yfirleitt eyða nálægt 3 þús. sterlingspundum í hverja ferð, og þó að ýmsir togarar hafi selt afarvel, þá hafa aðrir selt miður, og þess vegna mun togaraflotinn í heild sinni hafa mjög lítinn afgang. En seinni partinn í janúar og í febrúar var mjög gott sölutímabil, og hefir útgerðin þá fengið talsverðan gróða. Vitað er, að verð á fiski frá bátaútvegi landsmanna, þar sem sá útvegur hefir getað selt afla sinn til togara, hefir hækkað allverulega, en þó hafa margir bátaeigendur sagt mér, að þeir efist um, að sú verðhækkun hafi gert meira en að mæta þeirri gífurlegu verðhækkun, sem orðið hefir á olíu og veiðarfærum. Þó má vel vera, að það sé eitthvað fram yfir, en þá ber þess að gæta, að þessa sölu hefir ekki nema nokkur hluti bátaútgerðarinnar getað notfært sér.

Mér dettur náttúrlega ekki í hug að svara öðrum eins útúrsnúningi sem þeim, að Alþ. hafi ætlazt til að gera nokkra menn ríka með þeim l., sem þetta frv. fer fram á að afnema. Slíkt tel ég sem hvern annan þvætting, sem ekki sé svaraverður. Fyrir Alþ. vakti það eitt, að efla og styrkja undirstöðuna undir þessum atvinnurekstri til að bæta afkomu almennings í landinu. Allur þvættingur um, að hér hafi verið stofnað til þess að gera nokkra menn ríka, er alls ekki svaraverður.