27.03.1940
Neðri deild: 23. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í C-deild Alþingistíðinda. (2216)

81. mál, skattgreiðsla útgerðarfyrirtækja

*Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Ég mun nú fyrir mitt leyti ekki sjá neinum ofsjónum yfir þeim gróða, sem togararnir hafa haft af ísfiskssölunni. Mér finnst eðlilegt, að menn óski þess, að togaraútgerðin komist á betri fjárhagslegan grundvöll en hún hefir áður verið á, enda þótt menn kunni að greina á um það, á hvern hátt það megi bezt verða.

Hitt get ég fallizt á, að löggjöfin um skattfrelsi útgerðarfyrirtækja hafi verið sett til þess að gera þau fjárhagslega sterkari, og hefir það bæði verið viðurkennt í umr. um það mál og í l. sjálfum. Ekki mun hafa vakað annað fyrir löggjöfunum en að útgerðarfyrirtækin fengju greidd töp undanfarinna ára. En frá því að l. gengu í gildi hefir ófriðarástandið valdið því, að togarafélögin kváðu standa sig vel, eða a. m. k. sé nú um mun minni ástæðu að ræða til að láta þá breyt. haldast en var, þegar hún var gerð. Allar ástæður eru allt aðrar nú en þá, og líkur til, að þær breyttu ástæður verði næstu ár. En þessi l. ná til ársloka 1942. Ég hygg, að menn geti orðið sammála um, að það sé ekkert vit í því að hafa svo að segja alla útgerðina ekki aðeins skattfrjálsa, heldur að einnig sé heimilt fyrir bæjarstjórnir að gera hana útsvarsfrjálsa, þó að sá atvinnuvegur muni standa sig ágætlega í heild sinni meðan stríðið stendur, ef möguleikar verða á flutningum til annara landa.

Það hefir komið fram till. um að setja sérskatt á ísfiskssöluna til Bretlands, en mér finnst eðlilegra að afnema skattfrelsi útgerðarfyrirtækjanna en að hafa útgerðina skattfrjálsa á einu sviði og búa til sérskatt á öðru, en það hefir Alþ. samt gert allt of oft á undanförnum árum. Ég vil líka benda á það, að það eru ekki margir mánuðir liðnir af sölutímabilinu, og það eru allmargir mánuðir til áramóta, sem ísfiskssala ætti að geta gengið vel á, en ef hún brygðist, þá yrðu möguleikar á að breyta þessum l. í byrjun næsta þings. En ef þessum l. verður nú ekki breytt, eigum við á hættu að standa í mestu vandræðum innan svo langs tíma.

Það er líka annað atriði, sem gerir það að verkum, að ég tel rétt að afnema þessi l. og koma útgerðarfyrirtækjunum á sama grundvöll sem öðrum fyrirtækjum, að það myndi frekar reka á eftir skattamálanefnd að halda áfram sínum störfum. Ég hefi heyrt, að áhuginn hjá þeirri n. á endurskoðun skattalöggjafarinnar sé farinn að dofna, og það hjá sumum þeirra, er töluðu mest um nauðsyn þess. Ef útgerðarfyrirtækin lytu sömu reglum um skattagreiðslur sem aðrir landsmenn lúta, væri komin hvöt til þess að reka á eftir þessum málum.

Viðvíkjandi því, til hvaða n. þetta mál eigi að fara, get ég sagt, að ég legg að sjálfsögðu ekki mikið upp úr því, en fyrir mitt leyti álit ég, að hér sé algerlega um skattamál að ræða, sem sé að koma útgerðarfyrirtækjum undir venjulega skattalöggjöf, og vil ég því gera það að till. minni, að því verði vísað til fjhn.